Víkingur Reykjavík gerði góða ferð í Garðabæinn og vann 3:2-sigur á Stjörnunni í fjörugum leik í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Víkingur er nú með sjö stig eftir þrjár umferðir en Stjarnan aðeins eitt stig.
Fyrri hálfleikurinn var fjörugur, fjögur mörk skoruð og umdeild atvik. Víkingur skoraði fyrsta markið strax á 5. mínútu er Haraldur Björnsson gerði sig sekan um hræðileg mistök. Markvörðurinn sendi boltann beint á Nikolaj Hansen sem skoraði auðvelt mark.
Stjörnumenn svöruðu á 30. mínútu er Hilmar Árni Halldórsson lagði endahnútinn á eldsnögga skyndisókn eftir sendingu frá Þorsteini Má Ragnarssyni. Sjö mínútum síðar voru Víkingar hins vegar aftur komnir yfir. Brynjar Gauti Guðjónsson fékk boltann í höndina innan teigs og víti dæmt. Hansen fór á punktinn og skoraði sitt annað mark.
Stjarnan átti hins vegar lokaorðið í fyrri hálfleik því Tristan Freyr Ingólfsson skoraði stórkostlegt mark á lokamínútu hálfleiksins. Hann lék þá á einn varnarmann og smurði boltann upp í samskeytin fjær með stórkostlegu skoti og staðan í leikhléi því 2:2.
Það tók Víking sjö mínútur í seinni hálfleik að komst yfir í þriðja skipti. Markið var sáraeinfalt því Júlíus Magnússon skallaði í netið eftir hornspyrnu frá Pablo Punyed. Júlíus var algjörlega óvaldaður í teignum.
Stjörnunni tókst illa að skapa sér færi eftir markið, þrátt fyrir að vera meira með boltann. Hinum megin voru Víkingar skynsamir, vörðust vel og gáfu fá færi á sér. Kári Árnason og Halldór Smári Sigurðsson voru afar sterkur í seinni hálfleik og Stjarnan fann ekki leið framhjá vörn gestanna og 3:2-útisigur því raunin.
Sigurinn er afar sterkur fyrir Víkinga sem hafa farið vel af stað í sumar. Þessi skemmtilega blanda af reynsluboltum og yngri og spennandi leikmönnum er að virka betur en í fyrra og það er komin meiri skynsemi í bæði þjálfarann og leikmannahópinn. Víkingur gaf fá færi á sér í stöðunni 3:2 og sigldi glæsilegum sigri í höfn.
Vandræðin hjá Stjörnunni halda áfram, en liðið er aðeins með eitt stig eftir þrjá leiki. Fyrstu tvö mörkin komu í kvöld en það er vesen að skora tvö mörk á heimavelli en samt tapa. Stjörnumenn létu Víkinga ekki hafa mikið fyrir sínum mörkum og hinum megin vantaði bit í sóknarleikinn. Stjarnan var aldrei líkleg til að jafna í stöðunni 3:2, þrátt fyrir að hafa nánast allan seinni hálfleikinn.
Mörk Stjörnunnar komu úr góðri skyndisókn og með stórglæsilegu einstaklingsframtaki. Stjörnunni gekk illa að búa sér til færi með sinni hefðbundnu sóknaruppbyggingu og Þórður Ingason þurfti aðeins einu sinni að verja almennilega í seinni hálfleik. Það er búið að vera vesen á Stjörnunni innan- og utanvallar og miðað við leikinn í kvöld gæti það tekið tíma að laga það sem laga þarf.
Það er lítið vesen á Víkingsliðinu sem er orðið betri útgáfa af eigin liði frá því á síðustu leiktíð. Enn og aftur er Arnar Gunnlaugsson að sýna hversu hæfur þjálfari hann er og fótboltinn sem liðið spilaði í kvöld var hressandi og skemmtilegur í bland við mikla baráttu og góðan varnarleik.