Vonbrigði í byrjun en byggjum ofan á

Viktor Karl Einarsson festi sig í sessi sem lykilmaður á …
Viktor Karl Einarsson festi sig í sessi sem lykilmaður á miðjunni hjá Breiðabliki á síðasta tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við komum ferskir inn í síðari hálfleik og gerum út um leikinn svo það er ekki annað hægt en að vera mjög ánægður,“ sagði Viktor Karl Einarsson, sem átti fínan leik fyrir Breiðablik í 4:0 sigri á Keflavík í Kópavoginum í kvöld þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta, Pepsi Max-deildinni.

„Mér fannst þetta fínt hjá okkur, við komum vel gíraðir inn í leikinn eftir svekkjandi úrslit í hinum leikjunum og voru staðráðnir í að gera betur í dag. Ákefðin kom upp og allt sett á fulla ferð, fáum víti og í seinni hálfleik gerðum við út um leikinn á þriggja mínútna kafla. Við vorum ekki nógu slakir síðasta þriðjunginn á vellinum í fyrri hálfleik og áttum að klára leikinn með betri ákvarðanatöku og það löguðum við eftir hlé, sem skóp sigurinn.“

Blikum er spáð sigri í mótinu en byrjuðu það ekki vel með tapi og jafntefli en gætu verið komnir á bragðið. „Ég held að þessi sigur sé flottur leikur til að byggja ofan á, það voru smá vonbrigði í byrjun móts en við horfum ekki til baka, heldur fram á við,“ bætti Viktor Karl við. 

Bara almennt sáttur

„Ég er sáttur við þrjú stig, sáttur við að halda hreinu og sáttur við spilamennskuna að stórum hluta svo ég er almennt sáttur,“ sagði Óskar Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks eftir 4:0 sigur á nýliðum Keflavíkur í kvöld.

„Mér fannst leikurinn spilast þannig að við vorum sterkara liðið í fyrri hálfleik þótt Keflvíkingar hafi átt sín tækifæri til að gera okkur grikk en mér fannst við stjórna leiknum að mestum hluta. Stundum var ákvarðanatöku okkar og síðustu sendingu í sókn ábótavant fyrir hlé en í þeim síðari tókum við leikinn yfir og gerðum út um hann á þriggja mínútna kafla. Svo var spurning um að bæta við mörkum. Í hálfleik var hamrað á að Keflvíkingar gefi á sér færi á ákveðnum svæðum og við ætluðum að nýta okkur það, svo bara hvað við ætluðum að gera við boltann þegar við værum komnir í þessi svæði og ákvarðanatakan var betri í seinni hálfleik,“ bætti Óskar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert