Markvörðurinn og fyrirliðinn ekki meira með

Árni Snær Ólafsson í leik ÍA og Víkings á dögunum.
Árni Snær Ólafsson í leik ÍA og Víkings á dögunum. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Árni Snær Ólafsson markvörður og fyrirliði knattspyrnuliðs Skagamanna leikur ekki meira með á þessu keppnistímabili en hann sleit hásin í fæti í leiknum gegn FH í gærkvöld.

Árni staðfesti þetta við fótbolta.net í dag og kveðst vera að bíða eftir fréttum af því hvenær hann kæmist í aðgerð.

Þetta er mikið áfall fyrir Skagamenn en Árni hefur aðalmarkvörður ÍA frá 2014 og ekki misst úr deildaleik með liðinu í sex ár. 

Varamarkvörður ÍA er Króatinn Dino Hodzic sem varði mark Kára í 2. deildinni á síðasta tímabili og það kemur væntanlega í hans hlut að leysa Árna af hólmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert