„Þetta var mjög erfiður leikur en það voru gæðin innan okkar liðs sem skildi á milli í dag og skópu þennan sigur,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss sem sigraði Stjörnuna 3:1 á heimavelli í dag í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu.
Stjarnan átti betri færi í fyrri hálfleiknum og Alfreð segir Stjörnukonur alltaf líklegar fram á við.
„Stjarnan sækir á mörgum mönnum og mér fannst mínum leikmönnum ekki líða vel með það í upphafi leiks. En það kom okkur svo sem ekki á óvart og við vorum búin að fara vel yfir þetta fyrir leik. Þær eru hættulegar fram á við en þær taka áhættu með þessu. Mér leið ekki vel í stöðunni 1:0 og mér leið heldur ekkert vel á 90. mínútu því Stjörnukonur eru til alls líklegar í sókninni,“ segir Alfreð sem hrósaði liðsheildinni sinni mikið.
„Já, þetta var frábær sigur og frábær liðsheild hjá okkur og ótrúlega gaman að í fyrsta skipti í sögu Selfoss þá vinnum við þrjá fyrstu leikina í mótinu. Það eru mikil gæði í mörkunum hjá okkur í seinni hálfleiknum. Brenna Lovera með fyrirgjöf á Unni Dóru [Bergsdóttur] sem tímasetur skallann frábærlega. Síðan er Hólmfríður [Magnúsdóttir] búin að vera veik í tvo daga en hún spilar eins og herforingi hér í dag og skorar frábært mark,“ sagði Alfreð, sem gat leyft sér að taka Lovera af velli þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir.
„Ég varð að reyna að hvíla hana aðeins, þetta var ekki hennar besti leikur þó að það sé alltaf ógn af henni. En við eigum nóg af leikmönnum á bekknum og þær sem komu inná stóðu sig vel. Það er nauðsynlegt að rúlla þessu svona þegar er svona stutt á milli leikja,“ sagði Alfreð að lokum.