Dóra María Lárusdóttir, miðjumaður Vals, er ánægð með hvernig úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildin, fer af stað þetta sumarið, þar sem allir virðast geta unnið alla. Í dag vann Valur nauman 1:0 sigur á Fylki, sem hafði tapað 0:9 í gegn Breiðablik í fyrstu umferðinni.
„Þetta var bara barátta. Mér fannst skipulagið á okkur gott, holningin góð og við sköpuðum fín færi. En í stöðunni 1:0 þá getur þetta einhvern veginn dottið báðum megin og mér fannst þær gefa okkur hörkuleik,“ sagði Dóra María í samtali við mbl.is eftir leik.
Valur er á toppi deildarinnar, að minnsta kosti um stundarsakir, með 7 stig og markatöluna 3:1. Valskonur léku á als oddi á undirbúningstímabilinu og sagði Mist Edvardsdóttir í samtali við mbl.is eftir markalaust jafntefli gegn Þrótti á dögunum að Valskonur þyrftu að smyrja vélina svolítið til þess að koma sér almennilega í gang sóknarlega. Dóra María samsinnti því.
„Já ég tek undir það. Svo eftir spilamennsku okkar í vetur eru kröfurnar kannski orðnar svolítið miklar. Sigur er það sem við leituðumst eftir og við vorum að skapa okkur færi.
Þetta hefði alveg getað orðið stærra en á sama tíma hefðu þær alveg líka getað jafnað. Við vissum að staðan var 1:0, við vorum sáttar við það og spiluðum svolítið eftir því,“ sagði hún.
Mist, sem skoraði sigurmarkið í dag eftir stoðsendingu Dóru Maríu, þurfti að fara af velli rétt fyrir leikhlé eftir harkalegt samstuð. Spurð um líðan Mistar sagði Dóra María:
„Hún gat ekki haldið leik áfram eftir slæmt höfuðhögg þannig að það var ekki í boði að halda áfram. Við vonum að það sé ekki alvarlegt.“
Hún er spennt fyrir framhaldinu og kveðst ánægð með hversu samkeppnishæf deildin hafi verið í fyrstu umferðunum.
„Mér líst mjög vel á framhaldið. Það virðist stefna í skemmtilegra mót heldur en oft áður. Það eru fleiri lið sem geta blandað sér í baráttuna um toppsætin og allir geta vonandi unnið alla. Við förum til Eyja í næsta leik og Blikarnir áttu ekki góða ferð þangað þannig að við þurfum aldeilis að gíra okkur upp í þann leik,“ sagði Dóra María.
Blaðamaður tjáði henni þá að að Tindastóll hafi unnið ÍBV fyrr í dag, sem rennir stoðum undir orð hennar.
„Þetta er bara vonandi það sem koma skal í sumar. Eiginlega loksins, nú er ég búin að vera lengi í þessu og ég man ekki eftir svona byrjun á Íslandsmóti. Þetta hefur yfirlett verið tveggja hesta kapphlaup,“ sagði Dóra María að lokum í samtali við mbl.is.