Valur vann nauman 1:0 sigur gegn Fylki í þriðju umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum að Hlíðarenda í dag. Sigurmarkið skoraði varnarjaxlinn Mist Edvardsdóttir þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður.
Gestirnir í Fylki mættu áræðnar til leiks og slapp Hulda Hrund Arnarsdóttir í gegn eftir um 30 sekúndna leik, reyndi að pota boltanum framhjá Söndru Sigurðardóttur í marki Vals en hún kom vel á móti og varði.
Fylkiskonur pressuðu áfram hátt en ógnuðu marki Valskvenna þó ekki að ráði eftir þessa fjörugu byrjun. Eftir um 10 mínútna leik færðu Valskonur sig upp á skaftið og náðu betri tökum á leiknum.
Sigríður Lára Garðarsdóttir komst nálægt því að skora á 9. mínútu þegar boltinn fyrir fætur hennar í teignum í kjölfar hornspyrnu en Tinna Brá Ásmundsdóttir í marki Vals varði vel út í teiginn.
Um miðjan hálfleikinn átti Mist Edvardsdóttir skalla eftir hornspyrnu en hann fór af varnarmanni og rétt framhjá.
Örskömmu síðar, á 25. mínútu, tókst henni svo að skora. Dóra María Lárusdóttir átti þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri þar sem Mist tímasetti hlaup sitt frábærlega og sneiddi boltann laglega með höfðinu í bláhornið nær, 1:0.
Valur var áfram með undirtökin og var það fyrst og fremst miðvörðurinn Mist sem ógnaði áfram með sköllum eftir hornspyrnur.
Eftir eina slíka, rétt áður en flautað var til hálfleiks, skallaði hún yfir markið rétt áður en flautað var til hálfleiks, skall hún saman við Kötlu Maríu Þórðardóttur, varnarmann Fylkis, og lágu þær báðar sárþjáðar eftir. Mist, sem var búin að vera besti leikmaður Vals, þurfti að fara af velli vegna samstuðsins.
Í leikhléi var staðan 1:0, heimakonum í Val í vil. Í hálfleik fór Katla María sömuleiðis út af vegna samstuðsins.
Síðari hálfleikur byrjaði nákvæmlega eins og sá síðari þar sem Fylkiskonur fengu dauðafæri áður en ein mínúta var liðin. Bryndís Arna fékk þá boltann í vítateignum en skot hennar laust og beint á Söndru sem varði auðveldlega.
Eftir tæplega klukkutíma leik, á 57. mínútu, fóru Valskonur illa að ráði sínu þegar tvö dauðafæri fóru forgörðum. Bergdís Fanney Einarsdóttir slapp þá í gegn, fór framhjá Tinnu Brá en skotfærið var orðið þröngt, hún náði þó skotinu en Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir bjargaði glæsilega á línu. Bergdís fékk boltann aftur, lagði hann út á Elínu Mettu Jensen sem skaut yfir úr úrvals færi.
Fylkiskonur reyndu að jafna en flestar tilraunir þeirra voru skot af löngu færi sem voru alls ekki líkleg til árangurs.
Valskonur voru þó áfram með undirtökin en áttu í erfiðleikum með að ná inn öðru markinu til þess að gera út um leikinn.
Þrátt fyrir góða baráttu Fylkiskvenna dugði mark Mistar í fyrri hálfleiknum að lokum og naumur eins marks sigur Vals staðreynd.
Valur fer með sigrinum upp í toppsætið, að minnsta kosti um stund, og er með 7 stig eftir þrjá leiki.
Fylkir er á meðan í botnsætinu án stiga eftir tvo leiki.