Leiknir úr Reykjavík vann sinn fyrsta sigur í sumar í Pepsi Max-deild karla í fótbolta er liðið lagði Fylki, 3:0, á heimavelli í kvöld. Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknis, skoraði tvö mörk fyrir nýliðana.
Fyrri hálfleikur var með rólegasta móti og hvorugt liðið náði að skapa sér góð færi fyrr en í blálok hálfleiksins en þá skoraði Sævar Atli Magnússon fyrsta mark leiksins af stuttu færi eftir sendingu frá Degi Austmanni Hilmarssyni og var staðan í hálfleik 1:0, Leikni í vil.
Seinni hálfleikur byrjaði nokkuð fjörlega og Unnar Steinn Ingvarsson, miðjumaður Fylkis, skaut rétt yfir úr fínu færi strax í upphafi hálfleiksins. Eftir það líktist leikurinn meira fyrri hálfleik og gerðist lítið markvert eftir því sem leið á hálfleikinn.
Fylkismenn voru mun meira með boltann og sóttu að Leiknismönnum undir lok leiksins en illa gekk að skapa mjög gott færi og reyndi lítið á Guy Smit í marki Leiknis.
Varamaðurinn Daði Ólafsson fékk samt sem áður kjörið tækifæri til að jafna stuttu fyrir leikslok en hann skaut yfir úr dauðafæri eftir flotta fyrirgjöf frá Orra Hrafni Kjartanssyni.
Í staðinn fyrir jöfnunarmark bætti Leiknir við öðru marki á 87. mínútu er Gyrðir Hrafn Guðbrandsson skoraði með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Emil Berger.
Á lokamínútunni náði síðan Sævar Atli Magnússon í víti sem hann skoraði sjálfur úr og gulltryggði 3:0-sigur Leiknismanna.
Fylkir fann fá færi á vörn Leiknis í leiknum. Brynjar Hlöðversson og Bjarki Aðalsteinsson héldu sóknarmönnum Fylkis niðri í allt kvöld og varamaðurinn Daði Guðmundsson fékk eina góða færi Fylkis í leiknum en hann nýtti það illa.
Hinum megin var Dagur Austmann Hilmarsson duglegur að búa til færi fyrir liðsfélaga sína og Sævar Atli Magnússon gerði mjög vel í að skora tvö mörk. Hann hélt auk þess boltanum vel sem fremsti maður og kom liðsfélögum sínum inn i leikinn. Það er kærkomið fyrir Leikni að ná fyrsta sigrinum eftir að hafa verið nálægt því gegn Breiðabliki í fyrsta heimaleiknum.
Fylkismenn sköpuðu sér lítið sem ekki neitt gegn nýliðum og voru heilt yfir mjög daprir. Sendingar voru lélegar og það voru lítil gæði í leik Árbæinga. Þá voru þeir klaufar, sérstaklega í öðru og þriðja markinu.
Þá verður að setja spurningamerki við liðsval þjálfara Fylkismanna. Sterkir leikmenn eins og Orri Hrafn Kjartansson, Nikulás Val Gunnarsson og Þórður Gunnar Hafþórsson byrjuðu á varamannabekknum en sóknarleikur liðsins lifnaði við eftir að þeir komu allir inn á. Sérstaklega er furðulegt að Orri, sem er einn besti leikmaður liðsins, sé á bekknum.
Orri Sveinn Stefánsson, Jordan Brown, Djair Parfitt-Williams og Arnór Borg Guðjohnsen áttu ekki sinn besta dag og verða fleiri leikmenn að spila vel hjá Fylki til að skáka hvaða liði sem er.