Við skulduðum þetta frá því í fyrra

Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga.
Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst þetta frábær leikur hjá okkur, sérstaklega fyrri hálfleikur, sem ég held að hafi verið sá besti undir minni stjórn, leikurinn var góður í heildina hvort sem var varnarleikur eða skyndisóknir því við vorum að eiga við gott lið og allir þurftu að eiga sinn besta leik til að vinna,“ sagði Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga eftir 3:0 sigur á Breiðabliki þegar liðin mættust í 4. umferð efstu deildar karla í fótbolta í kvöld, Pepsi Max-deildinni.

Þótt Víkingar hefðu fært sig aftar á völlinn eftir hlé voru þeir sýnd veiði en ekki gefin. „Þeir ýttu okkur aftar á völlinn í seinni hálfleik og okkur leið ágætlega í lágvörninni, vorum þá hættulegir í skyndisóknum og þetta er þroskamerki frá því sem áður var þegar við vorum jafnvel of bráðir í að klára leik og fá þá á okkur alveg ömurleg mörk. Við þurftum líka góða markvörslu frá Þórði Inga til að halda okkur inni í leiknum í stöðunni 1:0 svo þetta var sigur liðsheildarinnar.“

Víkingar eru komnir með í efsta sæti deildarinnar eftir fjóra leiki.  „Við vitum að það tekur tíma að ná liðinu saman. Við fengum erfiðan fyrsta leik við Keflavík og svo voru í næsta leik uppi á Skaga ekki aðstæður til að spila góðan fótbolta en við höfum verið mjög öflugir í vörninni og líka í föstum leikatriðum, það er eitthvað sem við skuldum frá síðasta ári því við vorum daprir í því þar en nú höfum við fengið mark í hverjum einasta leik úr föstu leikatriði. Við höfum lagt mikla áherslu á þetta og uppskorið eftir því en, jú, mér finnst stígandi í liðinu því þrátt fyrir að okkur hafi gengið vel á mótinu hefur vantað flæði og rythma í liðið en í þessum sýndum við á köflum að við erum virkilega öflugir,“ sagði Arnar. 

Áttum fyrri hálfleik með húð og hári

„Við áttum fyrri hálfleikinn með húð og hári, áttum að vera komnir með fleiri mörk en eins og þjálfarinn hefur eflaust minnst á þá erum við að sýna meiri þroskamerki í okkar leik,“ sagði Kári Árnason varnarjaxl Víkinga eftir sigurinn á Breiðabliki. 

„Við slepptum inn óþarfa mörkum í síðasta leik gegn Stjörnunni en gerðum það ekki í dag og það var mjög ánægjulegt að halda hreinu á heimavelli í sumar. Mér finnst allir vera að taka skrefið fram á við.  Þórður í markinu ver svakalega þegar við þurfum á því að halda, til dæmis þegar Blikar fá færi í stöðunni 1:0 fyrir okkur og með því að skora hefðu Blikar komist inn í leikinn og við vitum hvernig leikir breytast með mörkum, þá hefði allt getað breyst Breiðabliki í vil en hann ver skotið. Eftir það var þetta þægilegt, Blikar þurftu auðvitað að taka einhverja áhættu og reyna að skora en þá náum við þeim með gagnsóknum. Við erum bara að verða klárari í þessu og svo eru menn eins og Júlíus Magnússon að spila eins og kóngar. Ég sagði við hann í fyrra að ég væri að bíða eftir að hann yrði besti miðjumaður í deildinni og mér sýnist hann vera að ná því ár. Svo var gott að fá Pablo, þá þarf Júlíus ekki að taka alla ábyrgð á miðjunni.“

Kári vill ekki slaka á. „Við eigum fullt inni. Mér fannst við frábærir í fyrri hálfleik þegar við sýndum okkar bestu hliðar en mér finnst við eiga mikið inni. Í stöðunni 1:0 pressa þeir á okkur framarlega og við erum ekkert að taka neina áhættu, enda óþarfi. Við Arnar þjálfari höfum rætt um að stjórna leik og það er orðið betra hjá okkur. Við erum að stýra leikjunum eftir því hvernig staðan er, hvort hitt liðið sé á skrið og svo framvegis en það er orðið mjög gott hjá okkur. Við ætlum ekkert að láta staðar numið og ætlum að halda okkur á toppi deildarinnar eins lengi og mögulegt er,“ bætti Kári við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert