„Ég er ánægður með að geta hjálpað liðinu að vinna í dag, það var bara gaman,“ sagði Ágúst Eðvald Hlynsson sem skoraði tvö og lagði upp eitt mark í 3:1 sigri FH í Kórnum í kvöld þegar 4. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu fór fram, Pepsi Max-deildarinnar.
„Mér fannst þetta hörkuleikur, HK setti pressu á okkur og mér fannst þeir flottir í dag en við nýttum færin okkar betur en þeir. Það er gott að vera með reynslubolta í liðinu í bland við unga stráka og þessi blanda er alveg geggjuð. Mér fannst þetta líka geggjaðir þrír punktar og alvöruiðnaðarsigur, eins og menn segja. Auðvitað er gott að hjálpa liðinu með að skora mörk og vinna leiki, vonandi get ég haldið því áfram,“ bætti markaskorarinn við.