Hefði svo sannarlega viljað hafa Rúnar með sér

Gísli Laxdal Unnarsson og Tristan Freyr Ingólfsson í leiknum í …
Gísli Laxdal Unnarsson og Tristan Freyr Ingólfsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Þorvaldur Örlygsson þjálfari Stjörnunar var ánægður með leik sinna manna í kvöld eftir markalaust jafntefli liðsins gegn ÍA á Akranesi í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu.

„En eins og alltaf í maí eru grasvellir kannski ekki upp á sitt besta og hafa ekki verið það frá því að við byrjuðum að spila knattspyrnu á Íslandi. Völlurinn var svona þokkalegur, skárri en Keflavíkurvöllurinn, og eitthvað sem maður þarf að sætta sig við, en þar af leiðandi verða leikirnir kannski svolítið öðruvísi og meiri upp og niður bolti,“ sagði Þorvaldur eftir leik í kvöld.

„Í heildina fannst mér við spila vel. Drengirnir lögðu sig fram og fengu færi, nógu mörg færi til þess að vinna hann hreinlega. Mér fannst við vera sterkari aðilinn en vissulega skoppar boltinn ekki alltaf með manni og þeir áttu sín færi líka. Ég var mjög ánægður með mína menn. Þeir lögðu sig fram og héldu sér við og komu sér í góðar stöður og settu hjartað í þetta. Það var mjög ánægjulegt,“ sagði Þorvaldur.

Þorvaldur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar fylgist með leiknum í kvöld.
Þorvaldur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar fylgist með leiknum í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Haraldur Björnsson varði tvívegis frábærlega í einn á einn stöðu gegn Skagamönnum í síðari hálfleik. Spurður hvort Þorvaldur hafi verið ánægður með Harald sagði hann:

„Já, já. Markmaðurinn stóð sig vel eins og hinir,“ sagði Þorvaldur áður en talið barst aftur að umræðu um grasvelli og gervigrasvelli. Spurður hvort hann vilji gervigrasvæða alla velli sagði Þorvaldur:

„Þetta er spurning sem ég gæti svarað í mörgum liðum. Ég held að við verðum bara að fara að sætta okkur við að það eru ekkert rosalega margir góðir grasvellir eftir á Íslandi. Það er ekki lagt það mikið í þá – hver stefnan sé og annað þvíumlíkt. Á meðan ekki er lagt meira í grasvelli en raun ber vitni þá held ég að þeir séu því miður á leiðinni út þótt ég feginn vildi hafa þá sem flesta. En við búum á Íslandi en ekki Spáni,“ sagði Þorvaldur.

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar til níu ára, hvarf á brott eftir fyrsta leik Stjörnunnar í ár og þá brá mörgum Stjörnumönnum í brún en Þorvaldur segir andann í hópnum samt sem áður vera góðan þrátt fyrir takmarkaða stigasöfnun.

„Andinn er svo sem fínn. En það segir sig auðvitað sjálft að leikmennirnir hér vilja vinna leiki eins og hver annar. Ég tók við liðinu núna og hefði svo sannarlega viljað hafa þann sem hefur stjórnað undanfarin ár líka, en svona er staðan,“ sagði Þorvaldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert