Höfum margoft farið yfir þetta

Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR-inga, í leiknum í kvöld.
Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR-inga, í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er gríðarlegt svekkelsi því mér fannst við ekki eiga að tapa þessum leik,“ sagði Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, í samtali við mbl.is eftir 3:2-tap liðsins gegn Val í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Meistaravöllum í Vesturbæ í 4. umferð deildarinnar í kvöld.

„Þeir voru kannski meira með boltann í fyrri hálfleik, án þess þó að ná að skapa sér eitthvað. Þannig séð vorum við með leikinn í okkar höndum eftir að hafa skorað snemma. Vissulega fáum við mark á okkur á mjög vondum tíma en mér fannst við samt eiga leikinn algjörlega í seinni hálfleikinn.

Þessi tvö mörk sem þeir skora í upphafi síðari hálfleiks voru hrein og bein gjöf af okkar hálfu, sérstaklega þegar þeir sleppa einir í gegn í þriðja markinu. Mörk breyta leikjum og það var nákvæmlega það sem gerðist í dag,“ sagði Óskar.

Pálmi Rafn Pálmason minnkar muninn fyrir KR af vítapunktinum á …
Pálmi Rafn Pálmason minnkar muninn fyrir KR af vítapunktinum á 69. mínútu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Getum ekki gefið þrjú mörk

KR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn illa og fengu á sig tvö mörk á sex mínútna kafla í upphafi hálfleiksins.

„Við vorum að elta þá allan seinni hálfleikinn en mér fannst við samt sem áður vera með þá þannig lagað enda fór leikurinn mestmegnis fram á þeirra vallarhelmingi í síðari hálfleik. Við getum hins vegar ekki gefið þrjú mörk, sérstaklega á heimavelli, og því fór sem fór.

Við vorum kærulausir og mættum kærulausir út í seinni hálfleikinn. Við höfum margoft farið yfir þetta enda aðeins verið gegnumgangandi að við erum að byrja leikinn illa og það er eitthvað sem við verðum að laga því við við erum einfaldlega ekki á tánum.“

KR er með 4 stig í sjöunda sæti deildarinnar en liðið hefur aðeins unnið einn leik það sem af er móti.

„Þetta er ekki sú byrjun sem við ætluðum okkur klárlega og ekki það sem við töluðum um í upphafi móts.

Á sama tíma er nóg eftir af þessu og það þýðir ekki að svekkja sig og mikið á þessu. Núna er það bara næsti leikur,“ bætti Óskar Örn við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert