Haraldur bjargaði stigi fyrir Stjörnuna

Morten Beck Guldsmed í sínum fyrsta leik með ÍA í …
Morten Beck Guldsmed í sínum fyrsta leik með ÍA í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Haraldur Björnsson markvörður Stjörnunnar bjargaði stigi fyrir Garðbæinga í kvöld gegn ÍA með tveimur frábærum markvörslum í síðari hálfleik á Akranesi. Leiknum lyktaði með markalausu jafntefli sem gerir lítið fyrir bæði lið sem skrapa botninn í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu. Bæði hafa þau þar tvö stig eftir fjórar umferðir og hafa að auki aðeins skorað tvö mörk.

Stjörnumenn mættu Skagamönnum framarlega á vellinum í fyrri hálfleik með Emil Atlason fremstan og Þorstein Má þar rétt fyrir aftan. Kantmennirnir Heiðar Ægisson og Hilmar Árni tóku einnig þátt í pressunni sem gerði uppspil Skagamanna iðulega nokkuð tilviljanakennt. Ljóst var að ÍA ætlaði sér að sækja hratt þegar færu gæfust og það tókst ágætlega í fyrri hálfleik og nokkur hálffæri litu dagsins ljós.

Hjá Skagamönnum var Aron Kristófer Lárusson sprækur sóknarlega í vinstri bakverðinum og þrumaði hann reglulega alvöru kúlum fyrir. Annars fer fyrri hálfleikur helst í sögubækurnar fyrir þær sakir að á fyrstu 25 mínútunum höfðu áhorfendur fengið að sjá ellefu hornspyrnur.

Stjörnumenn sýndu klærnar undir lok fyrri hálfleiks. Á 39. mínútu smellti Einar Karl Ingvarsson boltanum þéttingsfast í þverslána eftir að Aron Kristófer hafði brotið klaufalega á Emil fyrir utan teig. Á 44. mínútu fékk Hilmar Árni Halldórsson svo afbragðsfæri rétt utan markteigs en skaut framhjá.

ÍA hóf síðari hálfleikinn með látum og fékk sitt sitt besta færi strax í upphafi síðari hálfleiks. Þá náði Gísli Laxdal knettinum af Tristan í vinstri bakverði Stjörnunnar og slapp einn í gegn á móti Haraldi sem varði gríðarlega vel. Stjörnumenn sóttu aðeins í sig veðrið í kjölfarið og fengu fjölmargar hornspyrnur en náðu ekki að gera sér mat úr neinni þeirra.

Um miðbik síðari hálfleiksins þróaðist leikurinn út í hálfgerðan háloftabolta þar sem hvorugt liðið náði að skapa sér mikið. Mögulega endurspeglaði spilamennska beggja liða stöðu þeirra í deildinni. Sóknarleikur þeirra beggja var ekki upp á marga fiska og færanýtingin afleit enda hafa þau bæði aðeins skorað tvö mörk í fjórum leikjum.

Skagamenn fengu algjört dauðafæri upp úr engu á 78. mínútu er Viktor Jónsson slapp einn í gegn eftir að hafa unnið boltann af aftasta varnarmanni, Heiðari Ægissyni. Viktor rak boltann alla leið inn í teig en Haraldur Björnsson sá við Viktori og Skagamönnum í annað skipti í kvöld.

Skömmu síðar kom Emil Atlason sér í gott skotfæri eftir laglegan snúning en skot hans fór framhjá. Stjörnumenn þjörmuðu vel að Skagamönnum undir lok leiks og áttu skalla í slá í blálokin en inn fór boltinn ekki.

Stjörnumenn virðast enn vera að jafna sig á brotthvarfi Rúnars Páls úr stjórastólnum sem hann yfirgaf óvænt eftir fyrsta leik. Tvö stig eftir fjórar umferðir er eitthvað sem Garðbæingar eiga erfitt með að venjast enda hafa þeir verið í og við Evrópusæti undanfarin ár og tvo stóra titla. Fjölmargir leikmenn yfirgáfu liðið í vetur og nú er spurningin hvort komið sé að kynslóðaskiptum í liðinu. Þá þarf eflaust að stilla væntingum um mikla uppskeru í haust í hóf.

Einhverjir Skagamenn eiga eflaust erfitt með svefn í nótt. Þeir fengu tvö algjör dauðafæri sem hefðu líklega ratað í netið gegn flestum öðrum markvörðum í deildinni en Haraldi Björnssyni. Jóhannes Karl hlýtur þó að vera sáttur með spilamennsku og karakter sinna manna í kvöld eftir 5:1 skellinn gegn FH í síðustu umferð og meiðsli lykilmannanna Árna Snæs Ólafssonar og Sindra Snæs Magnússonar. Frammistaða Skagamanna í kvöld ætti að færa liðinu aukið sjálfstraust fyrir baráttuna sem framundan er í sumar.

ÍA 0:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Stjarnan fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert