Vil ekki meina að við séum að klúðra

Barátta í vítateig Stjörnumanna í kvöld.
Barátta í vítateig Stjörnumanna í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

„Ég var nokkuð ánægður með mína menn. Viljinn var til staðar og hugarfarið líka að mæta þessu Stjörnuliði sem er hálfsært. Þeir komu grimmir til leiks. Ég var að mörgu leyti mjög sáttur,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari Skagamanna eftir markalaust jafntefli hans liðs gegn Stjörnunni í Pepsi Max-deild karla í knattspyru í kvöld.

Jóhannes sagðist ánægður með leikinn í heild sinni hjá ÍA og segir spilamennskuna hafa verið of kaflaskipta það sem af er leiktíðar.

„ Við höfum ekki verið að ná að klára heila leiki með góðri frammistöðu og mér fannst þessi vera skref í rétta átt hvað það varðar. Að því sögðu fengum við líka færi, sleppum tvisvar í einir í gegn og Morten Beck er óheppinn hvernig hann hittir fyrirgjöf frá Gísla Laxdal á markteig. Í heildina er ég ánægður með margt en ég hefði viljað vinna leikinn,“ sagði Jóhannes sem fannst sínir menn vera líklegri til þess að stela sigrinum í kvöld.

„Mér fannst það. Þegar leið á leikinn erum við ennþá að keyra á Stjörnumennina á meðan þeir voru að setja langa bolta á okkur og eru alveg góðir í því. Mér fannst við skapa tækifæri til þess að landa þessum sigri,“ sagði Jóhannes sem segir aðspurður ekki kvarta mikið undan færanýtingunni.

„Ég vil ekki meina að við séum að klúðra. Ég vil meina það að báðir strákarnir sem komast í þessi færi, Viktor Jónsson og Gísli Laxdal, eru að gera það sem við erum biðja þá um að gera. Þegar menn komast í færi þá eiga þeir að reyna að koma boltanum í hornið framhjá markmanninum. Þetta var virkilega vel varið hjá Halla [Haraldi Björnssyni]. Auðvitað hefði maður viljað sjá annan boltann fara í netið og það munaði engu að snúningurinn í öðru skotinu hefði getað snúist í átt að markinu en því fór sem fór,“ sagði Jóhannes.

Jóhannes ræddi um aðalmarkvörð sinn, Árna Snæ Ólafsson sem meiddist illa í síðasta leik og kemur ekki meira við sögu í sumar, og  segist svekktur fyrir hans hönd. Hann sé þó sannfærður um að fyrirliði sinn komist vel í gegnum þetta enda sterkur karakter. Dino Hodzic kom í stað Árna í rammann í kvöld.

„Við vissum að Dino yrði klár að koma inn í liðið ef að kallið kæmi. Ég veit alveg að Dino óskaði ekki eftir því að fá tækifærið svona en því miður þá kom það svona og Dino skilaði bara mjög góðu dagsverki í dag,“ sagði Jóhannes en aðspurður um ólíka eiginleika þeirra tveggja og hvort það breyti uppleggi hans sagði hann:

„Jú. Það sást kannski aðeins að við þurftum að aðlaga okkur í uppspilinu og það sem snýr að löngu spyrnunum hjá Árna. Það eru svolitlir „kontrastar“ í þessum markvörðum tveimur og það breytir því kannski aðeins hvernig við leggjum leiki upp. En við erum með vel spilandi menn og getum alveg sparkað langt og spilað ut frá marki,“ sagði Jóhannes Karl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert