Tveggja leikja bann fyrir tæklinguna á Dalvík

Octavio Páez og Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis.
Octavio Páez og Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis. Ljósmynd/Leiknir

Octavio Páez, knattspyrnumaður frá Venesúela og leikmaður Leiknis í Reykjavík, var í dag úrskurðaður í tveggja leikja bann.

Páez kom inn á sem varamaður í leik Leiknis gegn KA á Dalvík, í sínum fyrsta deildarleik hér á landi, en var rekinn af velli eftir þrettán mínútur fyrir hressilega tveggja fóta tæklingu. 

Hann er þegar búinn að taka einn leik út í banninu, leik Leiknis gegn Fylki á mánudagskvöldið, en verður líka í banni á föstudagskvöldið þegar Leiknismenn heimsækja Íslandsmeistara Vals.

Emmanuel Eli Keke, miðvörður Víkings í Ólafsvík, fékk einnig tveggja leikja bann eftir brottrekstur í leik gegn Aftureldingu um síðustu helgi. Hann verður ekki með Ólafsvíkingum gegn Kórdrengjum og ÍBV í næstu leikjum í 1. deildinni.

Taylor Bennett, leikmaður kvennaliðs Aftureldingar, fékk sömuleiðis tveggja leikja bann vegna brottreksturs í leik gegn Víkingi R. í 1. deildinni. Hún missir af leikjum Mosfellinga gegn HK og Haukum.

Aðrir sem hafa fengið rauð spjöld að undanförnu fengu hefðbundið eins leiks bann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert