Ríkjandi Íslandsmeistarar Breiðabliks lentu í talsverðum vandræðum með þétta og baráttuglaða nýliða Tindastóls í fjórðu umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld. Breiðablik hafði þó að lokum nauman 1:0 sigur þar sem sigurmarkið kom seint í leiknum.
Blikar byrjuðu leikinn á því að setja Stólana undir gífurlega pressu. Raunar skoraði Tiffany McCarty eftir aðeins 30 sekúndna leik eftir laglega stungusendingu Öglu Maríu Albertsdóttur en markið var dæmt af vegna rangstöðu, sem virtist þó ansi tæp.
Mínútu síðar átti Áslaug Munda gott skot af hægri kantinum en það fór rétt framhjá.
Eftir þetta áhlaup í byrjun unnu gestirnir sig aðeins betur inn í leikinn og þéttu raðirnar umtalsvert varnarlega auk þess sem Amber Kristin Michel í marki Stólanna greip vel inn í þegar þurfti á að halda.
Blikar voru þó áfram skeinuhættir og fengu talsvert af hálffærum.
Besta færi fyrri hálfleiksins kom á 36. mínútu. Þá átti Hildur Þóra Hákonardóttir flotta fyrirgjöf frá hægri kanti inn að markteig þar sem McCarty kom aðvífandi, hún náði að slæma fætinum í boltann en skotið hársbreidd framhjá markinu.
Markalaust var því í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn þróaðist á keimlíkan hátt. Blikar voru með boltann nánast allan tímann á meðan Stólarnir vörðust vel.
Eftir rétt rúmlega klukkutíma leik skoraði McCarty öðru sinni, nú með laglegum skalla eftir mjög góða fyrirgjöf Kristínar Dísar Árnadóttur en öðru sinni var markið dæmt af vegna rangstöðu. Aftur virtist það vera nokkuð tæpt.
Á 76. mínútu fékk varamaðurinn Birta Georgsdóttir dauðafæri til þess að koma Blikum yfir. Agla Marí átti þá frábæran sprett upp vinstri kantinn, lagði boltann út á Birtu sem þurfti aðeins að stýra boltanum í netið en skotið framhjá.
Aðeins um 20 sekúndum síðar tóku Blikar forystuna. Áslaug Munda átti þá laglega fyrirgjöf á nærstöngina með jörðinni og þar var McCarty mætt og stýrði boltanum í bláhornið fjær. Að þessu sinni var markið ekki dæmt af henni og Íslandsmeistararnir komnir í forystu, 1:0.
Það urðu lokatölur og Breiðablik sigldi þar með mikilvægum sigri í höfn á meðan Tindastóll tapaði sínum fyrsta leik í efstu deild í sögu félagsins.
Breiðablik er eftir sigurinn í öðru sæti Pepsi Max-deildarinnar með níu stig eftir fjóra leiki, einu stigi á eftir toppliði Vals.
Tindastóll er áfram í fjórða sæti deildarinnar, að minnsta kosti um stundarsakir, með fjögur stig eftir þrjá leiki.