Stjarnan vann öflugan 1:0 sigur á Þór/KA Í leik í 4.umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu sem fram fór í Boganum í dag.
Fyrri hálfleikur var rólegur og lítið um opin færi. Heimakonur í Þór/KA voru þó sterkari aðilinn og uppskáru nokkrar hornspyrnur og fyrirgjafir sem þær náðu ekki að nýta. Sóknarleikur gestanna í fyrri hálfleik var máttlaus og náði liðið ekki skoti á mark. Staðan var 0:0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var mjög svipaður þeim fyrri. Heimakonur voru með yfirburði á vellinum en færin sem liðið fékk voru ekki nægilega hættuleg. Chante Sandiford var síðan mjög öflug í marki Stjörnunnar og stýrði liðinu vel. Það stefndi allt í 0:0 jafntefli í Boganum í dag en þegar komið var fram í uppbótartíma skoraði Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir sigurmark leiksins, lokatölur 1:0 fyrir Stjörnuna.
Heimakonur mega vera virkilega svekktar. Þær voru klárlega öflugri aðilinn í leiknum en stundum er það ekki nóg, ef að liðinu tekst ekki að skora þarf bara augnabliks einbeitingarleysi til að leikurinn tapist. Það nýttu Stjörnukonur sér vel og fara þar mjög sáttar heim með stigin þrjú.
Eftir leikinn er Þór/KA með þrjú stig eftir fjórar umferðir. Stjörnukonur eru með fjögur stig einnig eftir fjórar umferðir.