Hungrið var mikið í Árbænum í kvöld þegar leikið var í 5. Umferð efstu deildar karla í fótbolta. Gestirnir fá Keflavík sólgnir í sigur eftir tap gegn KA og Fylkismenn fengu skell gegn hinum nýliðum deildarinnar Leikni í síðasta leik. Árbæingar náðu 2:1 forystu með mikilli baráttu fyrir hlé og síðan tveimur eftir hlé þegar þeir tóku aftur við sér. Niðurstaðan 4:2 fyrir Fylki.
Aðeins voru liðnar rétt rúmar tvær mínútur þegar Frans Elvarsson fyrirliði Keflavíkinga skoraði af miðri markteigslínu eftir óðagot og vesen í vörn Fylkis eftir hornspyrnu. Þetta dugði engan vegin til að slá Árbæinga útaf laginu, þeir héldu áfram að sækja og voru oft að komast í góð færi, allt þar til Djair Parfitt-Williams lét á vörn gestanna og skoraði með föstu skoti undir markvörð Keflvíkinga, rétt utan við vinstra markteigshornið. Þrátt fyrir gestirnir kæmust fram völlinn voru færin heimamanna og á 24. Mínútu átti Orri Hrafn Kjartansson hörkuskot rétt við vítateigslínuna miðja, boltinn kom við varnarmann í hægra hornið. 2:1, verðskuldað. Undir lok fyrri hálfleiks tóku Keflvíkingar viðbragð og áttu nokkrar sóknir en tókst ekki að komast alla leið.
Keflvíkingar fylgdu eftir góðum spretti í lok fyrri hálfleiks og sótti grimmt en það var eins og Fylkismenn væru aðeins farnir að íhuga að halda fengnum hlut, eins og kemur fyrir á bestu bæjum. Loks tóku Fylkismenn við sér og sinni fyrstu sókn á 58. mínútu skoraði Orri Sveinn Stefánsson úr miðjum vítateig þegar Keflvíkingar voru í tómu basli í teignum. Aðeins liðu tvær mínútur þar til Orri Hrafn Kjartansson kom Fylki í 4:1 með þrumuskoti utan teigs, frábært mark. Aftur slógu Fylkismenn aðeins af sem dugði Keflavíkingum að minnka muninn í 4:2 þegar Joey Gibbs skoraði úr víti eftir að brotið var á Ástbirni Þórðarsyni á 70. Mínútu.
Fylkismenn uppskáru ríkulega þegar þeir settu þunga í sóknir sínar en áttu það svo til að hægja á og fara í að halda fengnum hlut en sluppu fyrir horn með þetta. Keflvíkingar voru nefnilega tilbúnir um leið og þeir var leyft að taka sviðið en gekk illa síðasta spölinn gegn þéttri vörn Fylkis.