„Biðum eftir þessu augnabliki“

Srdjan Tufegdzic, aðstoðarþjálfari Vals.
Srdjan Tufegdzic, aðstoðarþjálfari Vals. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

„Ég er ánægður með að klára leikinn. Þetta er rosalega mikilvægur sigur, erfiður leikur að spila á móti mjög góðu Leiknisliði. Við berum mikla virðingu fyrir þeim, flottur klúbbur og flottir leikmenn. Það er alltaf mikið hjarta í þessu Leiknisliði.“

Þetta sagði Srdjan Tufegdzic, aðstoðarþjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir nauman 1:0 sigur liðsins gegn nýliðum Leiknis í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu á Origo-vellinum að Hlíðarenda í kvöld, þar sem Patrick Pedersen skoraði sigurmarkið á 86. mínútu.

„Þetta var svolítið þolinmæðisverk, að missa aldrei trú og detta ekki í einhvern pirring yfir því að við gætum kannski ekki skorað. Við biðum eftir þessu augnabliki sem á endanum kom og kláraði leikinn fyrir okkur.“

Leiknismenn spiluðu þéttan og góðan varnarleik í leiknum. Spurður hvort eitthvað í leik þeirra hafi komið Valsmönnum á óvart sagði Tufegdzic:

„Nei, við vorum búnir að undirbúa þennan leik vel og vissum nákvæmlega hvað við þurftum að gera til þess að stoppa þeirra sóknir og mestu hættu. Í síðasta leik á móti Fylki skoruðu þeir þrjú mörk og voru mjög hættulegir. Þannig að það kom ekkert á óvart. Það vantaði kannski aðeins meiri hraða hjá okkur á boltanum, fá meira tempó og opna þessi svæði sem við vildum opna í dag aðeins fyrr.

En við megum ekki gleyma því að leikurinn spilast þannig að þeir fara neðar og neðar á völlinn og það gerir það að verkum að við höfðum ekki mikið pláss til að nota. Við þurftum að hafa þolinmæði og mennirnir sem komu inn á höfðu virkilega góð áhrif á leikinn og komu einhvern veginn strax með nýtt líf í þetta, það var strax hætta bæði vinstri og hægra megin. Þannig að við erum mjög ánægðir með að klára þetta.“

Lítið um „fancy“ fótbolta

Valur er í öðru sæti Pepsi Max-deildarinnar með 13 stig að loknum fimm umferðum eins og Víkingur Reykjavík en með ögn lakari markatölu. Tufegdzic viðurkennir að þrátt fyrir góða stigasöfnun vilja þjálfarar og leikmenn liðsins að það spili betur en hingað til.

„Já svo ég tali hreint út viljum við sjá liðið spila betur en yfirleitt er þetta svona í byrjun móts. Það eru mjög sjaldan lið sem koma og spila eitthvað „fancy“ fótbolta fyrstu 5-6 leikina, þetta eru baráttuleikir.

Allir eru að fara í leiki og vilja ekki taka mikla áhættur þannig að við erum bara ánægðir að safna stigum og þessi leikur í dag sýndi enn og aftur, eins og alla hina leikina sem við höfum verið að spila, að við gefumst aldrei upp, við missum aldrei trú á verkefninu okkar eða okkar markmiðum, hvað við þurfum að gera. Leikurinn er 90 plús mínútur þannig að það var mikilvægt að klára þetta,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert