Grímsi er okkar vítaskytta

Brynjar Ingi Bjarnason í baráttu við Víkingana Halldór Smára Sigurðsson …
Brynjar Ingi Bjarnason í baráttu við Víkingana Halldór Smára Sigurðsson og Viktor Örlyg Andrason á Dalvíkurvelli í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Brynjar Ingi Bjarnason var verðskuldað valinn í landsliðshóp A-landsliðsins í fótbolta í dag. Er hann fyrsti landsliðsmaður KA í háa herrans tíð. Brynjar var í eldlínunni í kvöld þegar KA og Víkingur mættust á Dalvíkurvelli í 5. umferð Íslandsmótsins, Pepsi-Max deild karla. Víkingar unnu leikinn 1:0 en KA brenndi af vítaspyrnu í uppbótatíma. 

Tap í dag. Mér fannst þið ólíkir því sem maður hefur séð í síðustu leikjum. Þið hafið verið öruggir á boltanum og látið hann ganga vel um völlinn. 

„Mér fannst við koma inn í leikinn dálítið óöruggir. Við vorum lengi að koma okkur í gang spilalega séð. Þetta lagaðist þegar leið á leikinn og svona síðustu tuttugu mínúturnar þá hrukkum við í gang en það var bara allt of seint.“ 

Þið fenguð svo víti i uppbótatíma sem Hallgrímur Mar misnotaði. Það var ansi fúlt fyrir ykkur en ef við höldum aðeins í húmorinn þá varst þú krýndur Vítaskytta Íslands fyrir einhverjum árum. Átt þú ekki að bara að taka þessi víti? 

„Ekki að mínu mati. Grímsi er búinn að vera heitur og hann er okkar vítaskytta númer eitt. Við stöndum og föllum með því sem kemur út úr vítunum. Það sýnir kjark og styrk hjá Grímsa að stíga upp á 90. mínútu og fara á punktinn. Við þjöppum okkur bara saman fyrir næsta leik og komum sterkir inn í hann.“ 

Það er útileikur gegn Stjörnunni, eftir þrjá daga. Það er spilað rosalega þétt. 

„Það er bara endurheimt hjá okkur. Menn þurfa að hugsa vel um sig og mæta ferskir á mánudaginn.“ 

Þú varst valinn í A-landsliðið í fyrsta skipti í dag. Hafði það einhver áhrif á þig í leiknum? 

„Nei, það hafði engin áhrif, þannig séð. Ég pældi ekkert í þessu. Maður er bara þakklátur fyrir að fá traustið og kallið og sénsinn á að sína hvað maður getur. En varðandi leikinn þá hafði þetta engin áhrif.“ 

Þetta var annar leikur KA á Dalvík á tímabilinu. Fyrsti tapleikur á heimavelli í mjög langan tíma. Eða er þetta kannski ekki á heimavelli? 

„Það er alveg spurning. Ég myndi segja að vígið á Greifavellinum standi enn. Persónulega finnst mér miklu betra að spila hér. Þá getum við spilað okkar leik. Við viljum halda boltanum og spila skemmtilegan bolta. Skilyrðin til þess eru betri hér.“ 

Það er hægt að segja það sama um Víkingana. Hefði ekki hentað ykkur betur að eiga við þá á Greifavellinum? 

„Jú, jú. Víkingur leggur leik sinn upp þannig að þeir vilja spila skemmtilegan og góðan bolta. Þeir hafa verið þekktir fyrir það og gerðu það vel í dag. Við viljum meina að við eigum að geta mætt þeim betur en við gerðum. Mér fannst, því miður, Víkingar hafa yfirhöndina mestmegnis í dag“ sagði Brynjar Ingi og stóð hann sig vel miðað við hve óvanur hann er viðtölunum. Þeim á eflaust eftir að fjölga á næstunni og því gott fyrir pilt að æfa sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert