Rautt spjald og mark af 40 metra færi í Kórnum

Jón Arnar Barðdal leggur upp fyrsta mark leiksins í kvöld.
Jón Arnar Barðdal leggur upp fyrsta mark leiksins í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÍA vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu í Pepsi Max-deild karla í fótbolta er liðið heimsótti HK í Kórinn og fagnaði 3:1-sigri. HK er enn án sigurs. HK-ingar voru sterkari aðilinn allan leikinn, en Skagamenn fögnuðu þrátt fyrir það kærkomnum stigum. 

Leikurinn byrjaði með látum og liðin skiptust á að sækja á fyrstu mínútunum sem endaði með að HK komst yfir á 8. mínútu. Arnþór Ari Atlason lagði þá boltann í bláhornið fjær með góðu skoti eftir flottan undirbúning frá Jóni Arnari Barðdal.

Skagamenn sóttu aðeins í sig veðrið eftir markið og á 25. mínútu dró til tíðinda því Egill Arnar Sigurþórsson, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu á HK þegar Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Morten Beck Guldsmed lentu saman í teignum. Þórður Þorsteinn Þórðarson steig á punktinn og skoraði stöngin inn.

Eftir jöfnunarmarkið var HK miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og heimamenn sköpuðu sér mikið af færum, en illa tókst að koma boltanum framhjá sterkum Dino Hodzic í marki gestanna og var staðan í hálfleik því 1:1.

HK hélt áfram að vera sterkari aðilinn framan af í seinni hálfleik og Bjarni Gunnarsson komst nálægt því að skora í upphafi hálfleiksins en hann skaut í slánna utan teigs. HK hélt áfram að sækja og Birnir Snær Ingason átti skot í stöng 20 mínútum fyrir leikslok. 

Það kom því algjörlega gegn gangi leiksins þegar Viktor Jónsson kom ÍA yfir á 72. mínútu þegar hann kláraði vel úr teignum eftir sendingu frá varamanninum Halli Flosasyni. 

Markið sló HK-inga út af laginu því heimamönnum tókst ekki að skapa sér góð færi eftir það. Ingi Þór Sigurðsson bætti svo við þriðja markinu í blálokin með skoti af löngu færi eftir skógarhlaup hjá Arnari Frey Ólafssyni í marki ÍA, þrátt fyrir að Hallur Flosason hafi fengið beint rautt spjald á lokamínútunni fyrir að sparka í Valgeir Valgeirsson. 

Klókir Skagamenn en klaufskir HK-ingar

HK fékk fleiri og betri færi og var mun meira með boltann. Birnir Snær Ingason átti skot stöng og Bjarni Gunnarsson skot í slá í seinni hálfleik og á öðrum degi hefði HK getað unnið öruggan sigur. Heimamenn fór hins vegar illa með færin og var refsað. 

Eftir að ÍA komst í 2:1 í sinni fyrstu sókn í seinni hálfleik voru Skagamenn afar klókir og gerðu allt sem þeir þurftu til að sigla stigunum í höfn. Þeir töfðu þegar þess þurfti, fóru 110% í hvert einasta einvígi og drápu leikinn, allt þar til Ingi Þór Sigurðsson skoraði ótrúlegt mark langt utan af velli. 

Það er áhyggjuefni fyrir HK að vera búið að leika fjóra heimaleiki í fyrstu fimm umferðunum án þess að vinna. Kórinn er ekki lengur það virki sem það var áður og liðið er í basli. HK tókst ekki að vinna í kvöld, þrátt fyrir að vera miklu betri aðilinn. Hvenær kemur þá fyrsti sigurinn? 

HK 1:3 ÍA opna loka
90. mín. ÍA fær gult spjald Á bekkinn fyrir að tefja. Fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert