Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals þurftu svo sannarlega að hafa fyrir sigrinum gegn nýliðum Leiknis úr Reykjavík í fimmtu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld. Valur hafði að lokum 1:0 sigur á Origo-vellinum og kom sigurmarkið seint í leiknum.
Valsmenn fengu dauðafæri snemma leiks, á 8. mínútu, þegar Kaj Leo í Bartalsstovu átti frábæra fyrirgjöf af hægri kanti beint á Patrick Pedersen sem skallaði beint á Guy Smit í marki Leiknis af örstuttu færi.
Leiknismenn voru þéttir fyrir og vel skipulagðir í sínum leik en heimamenn fengu þó sín færi, til að mynda á 35. mínútu, þegar Johannes Björn Vall slapp í gegn utarlega í teignum eftir laglegt samspil við Kristinn Frey Sigurðsson en Smit kom mjög vel út á móti og varði í horn.
Örskömmu síðar átti Kristinn Freyr lúmska fyrirgjöf á Pedersen en skalli hans yfir markið.
Var staðan markalaus í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn þróaðist á svipaðan hátt þar sem Valsmenn héldu boltanum en Leiknismenn spiluðu þéttan varnarleik.
Á 50. mínútu fengu Valsmenn þó gott færi þegar Leiknismenn misstu boltann á hættulegum stað eftir feilsendingu Dags Austmann Hilmarssonar. Kristinn Freyr kom boltanum á Sigurð Egil Lárusson sem náði föstu skoti í D-boganum en það fór beint á Smit.
Á 69. mínútu fékk Almarr Ormarsson, sem var nýkominn inn á sem varamaður, sannkallað dauðafæri þegar Vall gaf fyrir, Smit sló boltann út í teig en skot Almars, sem virtist ekki fyllilega viðbúinn að fá boltann, rétt framhjá fyrir opnu marki.
Á 86. mínútu, þegar leikurinn virtist vera að fjara út, náðu Íslandsmeistarar Vals forystunni. Vall átti þá flotta fyrirgjöf af vinstri kantinum þar sem Pedersen var mættur eins og gammur og skallaði í netið af stuttu færi, 1:0.
Hugsanlega hefði Smit getað gert betur í markinu en danski markahrókurinn gerði vissulega vel í að þefa uppi færið og klára það.
Þar við sat og naumur sigur Valsmanna staðreynd.
Valur fer með sigrinum upp í annað sæti Pepsi Max-deildarinnar með 13 stig, jafnmörg og Víkingur Reykjavík en með ögn lakari markatölu.
Leiknir er nú í 6. sæti deildarinnar, áfram með 5 stig.