Sannfærandi sigur Blika og Stjarnan á botninum

Tristan Freyr Ingólfsson og Gísli Eyjólfsson í baráttunni á Kópavogsvelli …
Tristan Freyr Ingólfsson og Gísli Eyjólfsson í baráttunni á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert

Breiðablik vann sannfærandi 4:0 sigur á nágrönnum sínum í Stjörnunni þegar liðin mættust í kvöld í 5. umferð Pepsi Max-deildar karla. Sigurinn var sanngjarn og síst of stór, þar sem Blikar réðu lögum og lofum stóra hluta leiksins, ekki síst í síðari hálfleik. 

Blikar eru þá komnir með 7 stig og eru í fimmta sæti deildarinnar eins og er en Stjörnumenn sitja nú á botni deildarinnar með 2 stig.

Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik, og fengu Stjörnumenn til að mynda fjórar hornspyrnur, en lítil hætta skapaðist af þeim. Blikar urðu fyrir skakkafalli á tíundu mínútu þegar sóknarmaðurinn sterki Thomas Mikkelsen virtist togna í nára, og Kristinn Steindórsson kom inn á í hans stað. 

Heimamenn unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn og eftir um hálftíma leik kom varamaðurinn Kristinn Blikum yfir. Hafði hann þá átt fínan leik og stýrt sóknarleik Blika í nokkrar mínútur á undan. Stjörnumenn höfðu þó ekki játað sig sigraða, en þeir náðu ekki að ógna marki Blika, sem voru nær því að bæta við öðru marki síðustu mínútur hálfleiksins en Garðbæingar að jafna.

Kristinn Steindórsson var nærri því búinn að bæta við öðru marki sínu strax í upphafi seinni hálfleiks, en eftir þunga sókn Blika féll ákafinn ögn niður fram að 60. mínútu þegar varnarmaðurinn Viktor Örn Margeirsson skoraði upp úr hornspyrnu Blika. Skömmu síðar var hann nærri því búinn að bæta við öðru marki, en skot hans var framhjá.

Eftir það var sigur Blika aldrei í hættu. Árni Vilhjálmsson skoraði þriðja markið á 74. mínútu, og þó að Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði rangstöðumark fyrir Stjörnuna, virtust gestirnir aldrei líklegir til þess að minnka muninn. Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Blika, kórónaði svo frábæran leik sinn í vörn og sókn með marki í uppbótartíma og sanngjarn 4:0 sigur í hús í Kópavoginum.

Eftir brösuga byrjun á Íslandsmótinu sýndu Blikar styrkleika sína í kvöld. Þeir börðust allir sem einn fyrir liðið, sérstaklega í seinni hálfleik, og var í raunar aldrei spurning hvort liðið myndi fara með sigur af hólmi eftir að annað markið kom.

Það var hins vegar fátt um fína drætti hjá Stjörnumönnum eftir að þeir lentu undir. Stuðningsmenn Blika sungu um „Stjörnuhrap“ og virtist það síst of harkalegur dómur miðað við frammistöðuna í kvöld. Garðbæingar hljóta að eiga meira inni miðað við gengi síðustu ára, og þeirra björtustu punktar voru ungu strákarnir Kristófer Konráðsson og Tristan Freyr Ingólfsson. Aðrir sem hafa verið í fyrirrúmi síðustu ár þurfa hins vegar að stíga upp ef ekki á illa að fara.

Breiðablik 4:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Kári Pétursson (Stjarnan) fær gult spjald Brýtur á Blika við miðlínu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert