„Við vorum meira með boltann og sköpuðum okkur betri færi en við töpum leiknum,“ sagði svekktur Birnir Snær Ingason, leikmaður HK, í samtali við mbl.is eftir 1:3-tap fyrir ÍA í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. HK fékk fleiri og betri færi en var refsað fyrir að nýta þau ekki nægilega vel.
„Þetta er búið að vera uppskriftin í öllum leikjunum á tímabilinu; við erum að fá færin en við náum einhvern veginn að tapa þessu. Það er alltaf hægt að fá mörk á sig, eins og þau sem þeir skora. Ég átti svo skot í stöng, Bjarni sömuleiðis og svo fengum við 3-4 færi sem fóru einhvern veginn ekki inn. Það vantaði að nýta færin og vera með aðeins meiri kraft fram á við. Þetta var dauft og okkur var refsað fyrir það.“
Birnir viðurkennir að andrúmsloftið var þungt í klefa HK-inga eftir leik, en þó hafi það verið gott fyrir leik. „Núna er það svoleiðis, en fyrir leik var það ekki svoleiðis. Við höfum verið að spila vel og við héldum að þetta myndi detta fyrir okkur í kvöld. Stemningin er þung núna eftir leik en við örvæntum ekki. Við erum að spila vel og ég veit þetta mun detta.“
Skagamenn töfðu mikið síðustu 20 mínúturnar og drápu leikinn, áður en Ingi Þór Sigurðsson skoraði þriðja mark liðsins í uppbótartíma. „Ég veit ekki hvað ég á að segja við þessum leik, það var nóg af löngum boltum og allt það, en það skilaði þeim þremur stigum í dag. Við fengum ekki neitt.“