Stórsigrar hjá ÍBV og Fram

Jose Sito skoraði tvö mörk fyrir Eyjamenn í kvöld.
Jose Sito skoraði tvö mörk fyrir Eyjamenn í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn og Framarar voru á skotskónum í 1. deild karla í fótbolta, Lengjudeildinni, í kvöld og unnu bæði stórsigra.

Eyjamenn sóttu Aftureldingu heim í Mosfellsbæ og sigruðu 5:0. Guðjón Pétur Lýðsson skoraði úr vítaspyrnu eftir kortér og þeir José Sito og Gonzalo Zamorano bættu við mörkum fyrir hlé. Þeir Sito og Zamorano voru aftur á ferð á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks, mörkin þá orðin fimm, og þar  við sat.

Í Safamýri tóku Framarar á móti Þór og gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik, komust í 3:0 en Indriði Þorláksson, Kyle McLagan og Fred Saraiva skoruðu mörkin. Indriði skoraði aftur um miðjan síðari hálfleik, 4:0, en Bjarni Guðjón Brynjólfsson kom Þórsurum á blað með marki í uppbótartímanum, 4:1.

Framarar eru þá komnir með 9 stig eftir þrjá leiki en Eyjamenn kræktu í sín fyrstu stig á tímabilinu. Afturelding er með 4 stig og Þór er með 3 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert