Þetta átti greinilega að fara svona

Kári Árnason fyrirliði Víkings verst með tilþrifum í leiknum á …
Kári Árnason fyrirliði Víkings verst með tilþrifum í leiknum á Dalvík í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Víkingurinn Þórður Ingason stóð á milli stanganna í kvöld þegar Víkingar lögðu KA 1:0 á Dalvíkurvelli í 5. umferð Pepsi-Max deildar karla.

Hann varði nokkrum sinum vel í leiknum en slapp við að þurfa að verja vítaspyrnu í uppbótartíma því Hallgrímur Mar Steingrímsson þrumaði boltanum yfir Þórð og yfir markið. Þórður gat því fagnað með félögum sínum í leikslok en Víkingur situr nú á toppi deildarinnar með 13 stig. Þórður var léttur eftir leik og kom í skemmtilegt viðtal. 

„1:0 eru frábær úrslit og ekki verra að halda hreinu annan leikinn í röð. Liðið er allt saman að spila mjög góða vörn og það hjálpar heilmikið. Þetta hefur bara gengið allt saman ótrúlega vel. Það er alltaf gott að ná í sigur á útivelli. Ég er mjög sáttur við þetta allt saman.“ 

KA þjarmaði aðeins að ykkur í lokin og þú þurftir að beita þér. 

„Það er viðbúið að þegar maður er með eins marks forystu þá mun hitt liðið setja pressu á mann. Sem betur fer stóðum við það af okkur og vorum bara heppnir í restina. Þetta gekk.“ 

Það var leiðinlegt fyrir þig að fá ekki að verja vítið. 

„Það hefði verið gaman. Ég tek því samt alveg að skotið hafi farið yfir markið. 

Áttir þú ekki þinn þátt í því? Dansaðir á línunni. Kallast þetta ekki að taka vítaskyttuna á taugum? 

„Ég ætla nú ekki að fara að hreykja mér af því. Þetta átti greinilega að fara svona.“ 

Þórður Ingason markvörður Víkings hefur aðeins fengið á sig þrjú …
Þórður Ingason markvörður Víkings hefur aðeins fengið á sig þrjú mörk í fyrstu fimm leikjunum. Eggert Jóhannesson

Nú tala allir knattspyrnumenn um að halda sér góðum og ná endurheimt. Það er alltaf svo stutt í næsta leik. Hvernig er það með markmann sem farinn er að nálgast fertugt? 

„Ég er nú bara 33 ára, slökum aðeins á“ segir Þórður og skellir upp úr. „Á þriðjudaginn er heimaleikur á móti Fylki. Nú er bara endurheimt og slökun um helgina. Það er ekkert annað á döfinni það er svo mikið af leikjum. Svo vonumst við eftir góðum úrslitum á þriðjudaginn.“ 

Er þá ekki lykilatriði að hafa góðan sjúkraþjálfara. Ég sá að ykkar maður er frá Blönduósi. Er það ekki mjög gott. 

„Jú. Sjúkraþjálfarar frá Blönduósi eru betri en sjúkraþjálfarar frá Reykjavík, ekki spurning“ sagði brosmildur markmaðurinn að skilnaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert