Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki ánægður í leikslok, enda lið hans nýbúið að tapa 4:0 fyrir Breiðabliki á Kópavogsvelli í 5. umferð Pepsi Max-deildar karla. Hann segir lið sitt hafa byrjað ágætlega en gefið eftir þegar leið á leikinn.
„Við vorum svo sem ágætir fyrstu 20-30 mínútur leiksins, en svo förum við að missa svæðin og í seinni hálfleik endum við bara í eltingaleik og fáum á okkur mörk í kjölfarið,“ segir Þorvaldur. Hann segist ekki geta svarað hvað hafi orðið til þess að Stjarnan gaf eftir.
En hvernig hyggst Stjarnan snúa blaðinu við? „Það er bara eitthvað sem við verðum að skoða á næstu dögum og vikum. Við höfum verið að reyna það, og verðum bara að halda áfram,“ segir Þorvaldur.