Við ætluðum ekki að fara halda sjó

Ólafur Ingi Stígsson á hliðarlínunni í kvöld.
Ólafur Ingi Stígsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum með ungt lið en ótrúlega spennandi strákar og auðvitað koma kaflar þegar gengur illa en menn verða bara að vaxa með verkefninu, í fyrri hálfleik flaut boltinn vel, það var góður hraði hjá okkur en við þurfum bara að þora og þá kemur þetta,“  sagði Ólafur Ingi Stígsson annar þjálfari Fylkis eftir 4:2 sigur á Keflavík í Árbænum í kvöld þegar leikið var í 5. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu.

Eftir góða kafla með mörkum fóru Árbæingar að í að halda fengnum hlut. „Við ætluðum ekki að fara halda sjó, vorum reyndar þarna á milli þegar við fórum ekki alveg til baka en heldur ekki fram, við getum lagað það en við þekkjum fótboltann – svona gerist ósjálfrátt þegar á að verja stöðu og ná í fyrsta sigur, sem er mjög mikilvægt,“ hélt Ólafur Ingi áfram.

Stuðningsmenn Fylkis gerðu kröfur um að bætt yrði fyrir tapið gegn Leikni í síðustu umferð og þjálfarinn sagði sína menn sama sinnis.  „Það getur verið að leikurinn við Leikni hafi aðeins setið í okkur og við ætluðum að byrja betur en mér fannst við svara marki þeirra mjög vel, vorum töluvert betri í fyrri hálfleik, spiluðum mjög vel og náðum að opna Keflavík með góðum hlaupum og fengum fleiri færi.  Fyrri var því alveg frábær en í þeim seinni, komnir með fjögur mörk gegn einu, förum við ósjálfrátt að falla til baka því við ætluðum að finna okkar fyrsta sigur og strákarnir stóðust það.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert