KR-ingar sýndu mátt sinn og megin er þeir unnu sannfærandi 2:0-sigur á FH í 5. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í dag. Vesturbæingar voru búnir að vera án sigurs í síðustu þremur leikjum eftir að hafa lagt Breiðablik að velli í fyrstu umferðinni.
„Við byrjum mótið þannig séð vel, í fyrsta leik, en svo höfum verið óheppnir finnst mér. Eigum fína leiki en erum að fá á okkur klaufaleg mörk í föstum leikatriðum og annað,“ sagði varnarmaðurinn Grétar Snær Gunnarsson í samtali við mbl.is en hann og Finnur Tómas Pálmason voru frábærir í vörn KR-inga í dag.
Grétar kom til félagsins frá Fjölni í vetur og þá var Finnur í fyrsta sinn í byrjunarliðinu eftir að hafa komið til baka á láni frá Norrköping í Svíþjóð en hann spilaði með KR síðustu tvö tímabil. Þá var Kjartan Henry Finnbogason sömuleiðis að byrja sinn fyrsta leik í sumar með KR eftir að hann sneri aftur til uppeldisfélagsins frá Danmörku á dögunum. Kjartan var erfiður viðureignar fyrir FH í dag og fiskaði meðal annars vítaspyrnuna sem gestirnir skoruðu annað markið úr.
Grétar segir innkomu þeirra hafa skipt sköpum.
„Það sést bara, Kjartan er með þennan karakter og framkomu inni á vellinum, hann vill vinna. Þegar hann kom inn í búningaklefann í fyrsta sinn fyrir síðasta leik þá var eins og hann væri búinn að vera hérna síðustu tíu árin, hann er fábær og rífur menn með sér. Finnur sömuleiðis hefur verið þarna áður og er frábær,“ sagði Grétar Snær í samtali við mbl.is.