KR vann 2:0-sigur á FH í lokaleik 5. umferðar Íslandsmóts karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, er liðin mættust á Kaplakrikavelli í dag. KR-ingar lyftu sér upp um þrjú sæti með sigrinum en tapið var það fyrsta hjá FH á leiktíðinni.
KR-ingar hafa undanfarin ár verið eitt besta útivallarlið Íslandsmótsins. Þeir töpuðu ekki á útivelli á síðustu leiktíð og voru búnir að vinna Breiðablik á Kópavogsvelli og gera jafntefli gegn Fylki í Árbænum í sumar fyrir leik dagsins. Viðureign þessara stórliða byrjaði svo í takt við þessa tölfræði á Kaplakrikavelli. KR-ingar voru öflugir í upphafi leiks og skoruðu fyrsta markið á 8. mínútu.
Ægir Jarl Jónasson gerði það með föstum skalla eftir hornspyrnu Atla Sigurjónssonar en skömmu áður og skömmu síðar fékk Kjartan Henry Finnbogason tvö álitleg skallafæri sem honum tókst ekki að nýta. Kjartan er nýkominn aftur til uppeldisfélagsins frá danska B-deildarfélaginu Esbjerg en þetta var hans fyrsti byrjunarliðsleikur eftir að hafa komið inn af varamannabekknum í tapinu gegn Val í síðustu umferð. Hann verður Vesturbæingum væntanlega mikilvægur í sumar og var FH-ingum erfiður viðureignar í dag. Þá skorast hann sjaldan undan því að láta finna fyrir sér og spila af krafti, enda fékk hann gult spjald á 26. mínútu og dansaði nokkuð á línunni eftir það.
Kjartan var svo ekkert hættur að áberandi í síðari hálfleik. Snemma í síðari hálfleik fiskaði hann vítaspyrnu, lék með knöttinn inn í teig og fékk svo Guðmund Kristjánsson aftan í sig. Pálmi Rafn Pálmasson steig á punktinn og skoraði af öryggi, staðan orðin 0:2 á 53. mínútu.
Eftir þetta virtist botninn hreinlega detta úr leik FH-inga þó nægur tími væri enn til stefnu. Heimamenn fengu fátt annað en hálffæri það sem eftir lifði leiks og þrátt fyrir skiptingar sem áttu að hressa upp á sóknarleikinn beit fátt á agaðan varnarleik KR-inga. FH-ingum mistókst því að komast upp að hlið toppliðanna, Vals og Víkings, og eru áfram með 10 stig í þriðja sætinu. KR-ingar lyfta sér aftur á móti upp töfluna, upp í 6. sæti þar sem þeir hafa sjö stig.
Áfram vinna KR-ingar á útivelli en þeir hafa ekki tapað slíkum deildarleik síðan í Kórnum í ágúst 2019, töpuðu þá 4:1 gegn HK. Nú þurfa Vesturbæingar hins vegar að finna réttu formúluna í Frostaskjóli. Það er gulls ígildi fyrir þá að Finnur sé snúinn aftur í vörnina og virðist sem hann og Grétar Snær geti myndað öflug miðvarðarpar. Þá er Kjartan Henry að spila á sínu fyrsta Íslandsmóti síðan 2014 og sá var drjúgur í dag. Það er gaman fyrir alla að Kjartan Henry sé kominn heim, nema akkúrat liðið sem hann er að spila á móti hverju sinni.
FH-ingar féllu aðeins á prófinu eftir annars fína byrjun á tímabilinu. Þeir fá þó tækifæri til að snúa aftur á sigurbraut í næstu umferð er þeir heimsækja nýliða Leiknis úr Reykjavík á þriðjudaginn. Á sama tíma fá KR-ingar HK í heimsókn á Meistaravelli. HK vann frækinn 3:0-sigur í Vesturbænum á síðustu leiktíð og verður áhugavert að sjá hvað gerist í næstu viðureign liðanna.