FH tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu er KR kom í heimsókn á Kaplakrikavöll og vann 2:0-sigur í lokaleik 5. umferðar Pepsi Max-deildarinnar. Ægir Jarl Jónasson kom gestunum yfir snemma leiks og Pálmi Rafn Pálmason bætti svo við marki úr vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik.
„Við byrjum leikinn daufir og fáum á okkur mark eftir átta mínútur. Svo kemur þessi vítaspyrna í byrjun seinni hálfleiks og fer dálítið með okkur, við vorum búnir að koma okkur inn í leikinn,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari FH, í samtali við mbl.is strax að leik loknum.
„Við erum byrjaðir að skapa færi og þeir fara varla yfir miðju en svo er á brattann að sækja eftir annað markið. KR-ingar lágu á síðasta þriðjungi vallarins og það er erfitt að spila á móti því. Þeir spiluðu góða vörn og það er ekki hægt að neita því.“
Spurður hvort FH þurfi ekki að vinna leiki sem þessa, ætli liðið sér hlutverk í toppbaráttunni var Logi snöggur að svara.
„Við þurfum bara að vinna alla leiki. Ef við ætlum ekki að fara að vinna leiki eins og þann síðasta þá myndi nú einhver segja eitthvað. Það eru alltaf jafnir og tvísýnir leikir þegar þessi lið mætast. Þeir voru ofan á í dag og það nær ekki lengra en það.“