Tvær þrennur í þremur leikjum

Pétur Theódór Árnason skoraði þrennu.
Pétur Theódór Árnason skoraði þrennu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pétur Theódór Árnason gerði sér lítið fyrir og skoraði sína aðra þrennu í þremur leikjum í Lengjudeild karla í fótbolta í dag er Grótta vann sannfærandi 5:0-sigur á Vestra á heimavelli. 

Pétur gerði einnig þrennu í 4:3-sigri á Þór í 1. umferðinni og er hann því markahæstur í deildinni með sex mörk. Pétur gerði 15 mörk í 22 leikjum sumarið 2019 og kann vel við sig í næstefstu deild. 

Framherjinn stóri og stæðilegi kom Gróttu yfir á 9. mínútu áður en Kjartan Kári Halldórsson og Björn Axel Guðjónsson bættu við öðru og þriðja markinu á 17. og 24. mínútu. Pétur bætti svo við tveimur mörkum í seinni hálfleik. 

Bæði lið eru með sex stig í þriðja og fjórða sæti, þremur stigum á eftir toppliðum Fram og Fjölnis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert