Blikar gerðu góða ferða á Skipaskaga í kvöld og unnu heimamenn í ÍA 3:2 í miklum baráttuleik þegar liðin mættust í 5. Umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi Max deildinni. Þó Breiðablik hafi ekki fært sig ofar í stigatöfluna safnast þessi stig í sarpinn.
Gestirnir úr Kópavogi voru sókndjarfari og sóttu oft skemmtilega á mörgum mönnum en vörn Skagamanna var þétt fyrir, færði sig aftar og lokaði svæðum. Það brást hins vegar á 15. mínútu þegar Jason Daði Svanþórsson skaut yfir af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf Kristins Steindórssonar eftir góðan sprett upp hægri kantinn. Skagamenn áttu þó sínar sóknir, snöggir fram og pressuðu vörn Blika oft hraustlega.
Engu síður voru færin gestanna og Gísli Eyjólfsson komst upp að markteig ÍA á mikilli siglingu en skaut hátt yfir. Þegar stuðningsmenn voru orðnir úrkola vonar átti Kristinn góða sendingu upp vinstri kantinn á Gísla Eyjólfsson, sem var smá stund að leggja boltann fyrir sig inn í teig á 42. Mínútu áður en hann skaut undir Dino Hodzic í marki ÍA. Á síðustu mínútu fyrri hálfleiks fjölmenntu Skagamenn í sóknina og tóku hornspyrnu en misstu boltann, Blikar geystust í sókn fjórir á móti tveimur, Jason smeygði sér framhjá Elias Tamburini og gaf síðan fyrir markið þar sem fyrir voru þrír Blikar, Kristinn tók skotið úr miðjum vítateig en Elias var þá kominn til baka, kom sér fyrir á línunni og varði.
Þjálfari ÍA gerði þrjár breytingar í hálfleik og heimamenn hófu leikinn með stórsókn, Viktor Jónsson kastaði sér fram og skallaði markinu en það var varið í horn. Brynjar Snær tók hornið og sendi inní markteig þar sem Viktor kom aftur og skoraði með skalla, staðan 1:1. Blikar ákváðu að auka kraftinn til að ná undirtökunum og hófu að sækja grimmt. Á 55. Mínútu gerðu Skagamenn hrikaleg mistök í vörninni, Gísli Eyjólfsson hirti af þeim boltann við endalínuna og gaf þvert fyrir markið þar sem Jason Daði kom á ferðinni og skoraði. Það sem eftir lifði leiks var barátta um undirtökin og bæði lið reyndu af krafti. Kópavogsliðið var þó aðeins beittara og á 77. Mínútu afgreiddi Árni Vilhjálmsson laglega í marki ÍA góða þversendingu Jasons Daða. Heimamenn voru þó ekki alveg búnir að kasta inn handklæðinu og Steinar Þorsteinsson minnkaði muninn á 88. Mínútu með þrumuskoti af stuttu þröngu færi.
Blikar fengu þrjú sig fyrir sigurinn en eru enn í fimmta sætinu með 10 stig, það gera Skagamenn líka og eru áfram í níunda sætinu.