Enn tapa Stjörnumenn

Frá leik Stjörnunnar og KA frá síðustu leiktíð.
Frá leik Stjörnunnar og KA frá síðustu leiktíð. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Stjarnan tapaði enn einum leiknum í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, þegar KA kom í heimsókn í Garðabæinn í kvöld. Eftir jafnan leik unnu gestirnir frá Akureyri að lokum nauman 1:0 sigur og kom sigurmark KA-manna seint í leiknum.

Þrátt fyrir nokkuð fjörugan fyrri hálfleik þar sem bæði lið fengu prýðis hálffæri og áttu nokkrar góðar skottilraunir fyrir utan teig rataði boltinn í netið hjá hvorugu liði. Bæði Stjörnumenn og KA-menn voru enda ansi þéttir fyrir og gáfu engin opin færi á sér.

Í fjölda skipta komust miðverðir beggja liða fyrir markskot og Haraldur Björnsson í marki Stjörnunnar og Steinþór Már Auðunsson hjá KA voru vandanum vaxnir þegar þurfti á að halda.

Eftir markalausan fyrri hálfleik leið ekki á löngu þar til KA fékk besta færi leiksins, á þeim tímapunkti, á 52. mínútu. Belgíski miðjumaðurinn Sebastiaan Brebels átti þá frábæra stungusendingu inn fyrir á Hallgrím Mar Steingrímsson, sem var kominn einn á móti Haraldi, reyndi að lauma boltanum framhjá honum en Haraldur varði frábærlega.

Á 67. mínútu átti Heiðar Ægisson frábæra fyrirgjöf beint á kollinn á Emil Atlason sem náði skallanum af stuttu færi en náði ekki að stýra honum í annað hornið og fór hann beint á Steinþór Má fyrir miðju markinu.

Á 79. mínútu kom Tristan Freyr Ingólfsson boltanum yfir á varamanninn Ísak Andra sem lagði hann út á Hilmar Árna Halldórsson sem reyndi skot á nær en Steinþór Már varði frábærlega með vinstri fæti og aftur fyrir í horn.

Það voru hins vegar gestirnir sem tóku forystuna skömmu síðar, á 82. mínútu. Hallgrímur Mar vippaði þá boltanum inn á teiginn þar sem Daníel Hafsteinsson féll við í baráttu við Tristan Frey sem náði ekki að koma boltanum út úr teignum, boltinn barst til Elfars Árna sem kláraði laglega í bláhornið.

Þar við sat og sterkur 1:0 útisigur KA-manna staðreynd á meðan Stjarnan hefur ekki enn unnið leik í sumar.

Steinþór Már lék vel í fyrri hálfleik en steig enn frekar upp í þeim síðari með nokkrum frábærum vörslum og mikilvægum inngripum.

KA er nú með 13 stig eftir sex leiki og fer með sigrinum upp í annað sæti Pepsi Max-deildarinnar, að minnsta kosti um stundarsakir.

Á meðan er Stjarnan á botni deildarinnar með aðeins 2 stig í sex leikjum.

Stjarnan 0:1 KA opna loka
90. mín. Heiðar Ægisson (Stjarnan) á skot sem er varið Skotið fyrir utan teig en í varnarmann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert