Völsungur er eitt fjögurra liða sem hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í 2. deild kvenna í knattspyrnu eftir 2:0-sigur á KH á Húsavík í dag.
Hildur Anna Brynjarsdóttir kom heimakonum í forystu á 24. mínútu áður en Samara De Freitas bætti við marki átta mínútum fyrir leikslok. Völsungur er því með sex stig eftir tvær umferðir, rétt eins og Fjölnir, Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir og Fram. KH er með þrjú stig en liðið vann Hamar í fyrstu umferðinni.