Eyjólfi Héðinssyni, miðjumanni Stjörnunnar, fannst liðið síst vera lakari aðilinn og sterkari ef eitthvað er þegar það tapaði 0:1 fyrir KA á Samsung-vellinum í Garðabæ í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld.
„Þetta var mjög svekkjandi. Ég veit svo sem ekki hvernig þetta leit út utan frá en þetta er leikur við sem við áttum ekki að tapa fannst mér. Ég veit ekki hvort jafntefli hafi verið sanngjarnt eða þá að við hefðum átt að vinna. Þetta var bara nokkuð jafn leikur.
Við byrjuðum mjög vel, þeir komust síðan vel inn í leikinn í fyrri hálfleik, héldu boltanum vel en sköpuðu ekki neitt. Við fengum mjög góð upphlaup í fyrri hálfleik þar sem við hefðum átt að gera betur. 0:0 í hálfleik var allt í lagi, dagsskipunin var að vera þolinmóðir og halda markinu hreinu og þá erum við alltaf ágætlega sterkir í lokin og getum skorað sigurmark á síðustu mínútu,“ sagði Eyjólfur í samtali við mbl.is eftir leik.
„Okkur leið alveg vel inni á vellinum, alla vega leið mér mjög vel. Ég geri ráð fyrir því að liðsfélögum mínum hafi liðið vel í seinni hálfleik líka. Við vorum ofan á fannst mér í seinni hálfleik og vorum að skapa tækifæri til þess að búa til færi og fengum einhver færi líka en þetta er bara sagan okkar í sumar.
Við náum ekki að skora þrátt fyrir fínar sóknir. Við erum ekki að spila hræðilega eða eitthvað svoleiðis. Við fáum mark á okkur og töpum með einu þrátt fyrir að hafa alls ekki verið verra liðið,“ bætti hann við.
Eftir vont 0:4 tap gegn Breiðabliki síðastliðinn föstudag í deildinni var spilamennska Stjörnumanna töluvert betri í kvöld. Uppskeran var þó sú sama í báðum, 0 stig.
„Þetta var skref í rétta átt frá Breiðabliks-leiknum, það er alveg klárt. Mér fannst við spila fínt uppi á Skaga í leiknum þar á undan, við gerðum jafntefli þar en hefðum getað fengið þrjú stig. Á móti Víkingi spiluðum við fínt líka en fengum ekkert út úr þeim leik. Það er ekki að gefa neitt að spila fínt, við verðum að skora og halda markinu hreinu.
Við getum ekki gert neitt annað en að halda áfram. Það er engan bilbug á okkur að finna, bara alls ekki. Við höldum bara áfram. Við teljum okkur alls ekki hafa verið slaka í þessum leikjum, Breiðabliks-leikurinn var algjör „off“ leikur, ef við drögum hann út úr menginu þá erum við búnir að spila ágætlega og það kemur að því að þetta dettur með okkur. Við sýnum bara þolinmæði og höldum áfram, það er það eina sem við getum gert,“ sagði Eyjólfur einnig í samtali við mbl.is.