„Við gerum mistök í mörkunum sem við fáum á okkur þegar þeir refsa vel svo þetta var hörkuleikur við gott Blikalið,“ sagði Arnar Már Guðjónsson fyrirliði ÍA eftir 3:2 tap fyrir Breiðabliki á Skipaskaga í kvöld þegar 6. umferð efstu deildar karla í fótbolta hófst, Pepsi Max-deildarinnar.
„Við ætluðum að reyna að pressa þá, jafnvel maður á mann, en þeir náðu oft að leysa það ansi vel. Það var uppleggið í okkar kerfi að mæta þeim þar og reyna að læsa þá inni, það heppnaðist inn á milli en svo þegar það klikkar hjá okkur erum við opnir og þeir ansi góðir,“ bætti fyrirliðinn við og sá ljósa punkta í tapinu.
„Ég er alls ekki ósáttur við okkur í dag, leikurinn var jafn þótt Blikar séu meira með boltann því við áttum alltaf möguleika þegar við vorum komnir síðasta þriðjunginn hjá þeim og komum boltanum inn í teig hjá þeim. Ég er svekktur núna en svona er þetta.“