Steinþór Már Auðunsson átti frábæran leik í marki KA þegar liðið bar sigurorð af Stjörnunni, 1:0, í sjöttu umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.
„Þetta var ekki fallegasti sigurinn. Þetta var mjög ljótur sigur en það er alltaf gaman að vinna þessa 1:0 sigra og halda hreinu. Þetta eru skemmtilegustu sigrarnir, ljótu sigrarnir. Maður þarf að berjast fyrir þessu og hafa fyrir hlutunum,“ sagði Steinþór Már í samtali við mbl.is eftir leik.
Eftir svekkjandi tap í fimmtu umferð gegn Víkingi Reykjavík, 0:1 á „heimavelli“ á Dalvík, unnu KA-menn keimlíkan sigur í kvöld. „Já við urðum eiginlega að koma hingað og vinna eftir að við töpuðum þar í svipuðum leik og þessum. Þá féll þetta hinum megin en í kvöld féll þetta okkar megin,“ bætti hann við.
Steinþór Már er 31 árs gamall en er á sínu fyrsta tímabili í efstu deild á ferlinum. Í fyrra lék hann með Magna í fyrstu deildinni, Lengjudeildinni, og hefur einnig spilað fyrir Völsung, Dalvík/Reyni og Þór Akureyri á ferli sínum, í fyrstu og annarri deildinni.
Þrátt fyrir að hafa verið fremur óvænt hent út í djúpu laugina í efstu deild hefur enginn skrekkur verið í honum, enda hefur Steinþór Már aðeins fengið á sig þrjú mörk í leikjunum sex í Pepsi Max-deildinni til þessa.
„Maður reynir að vera rólegur, stundum gengur það og stundum ekki. Það gekk í dag. Sem betur fer náðum við inn þessu sigurmarki,“ sagði hann.
En hvernig kom það til að Steinþór Már tók loks stökkið í efstu deild? „KA-menn voru bara að leita sér að öðrum markmanni í vetur og þar sem maður er nú uppalinn í KA hefur maður alltaf viljað vera þar,“ en Steinþór Már lék sína fyrstu meistaraflokksleiki á ferlinum í fyrstu deildinni fyrir KA árið 2007.
„Svo langaði mig að prófa að vera í efstu deild og sjá hvernig umhverfið væri þar miðað við fyrstu og aðra deild, þar sem maður hefur verið öll sín ár. Það er náttúrlega gríðarlegur munur á öllu, þetta er miklu meira „professional“ hjá KA heldur en hinum liðunum þó að þetta hafi líka verið mjög flott hjá Magna,“ útskýrði hann.
Spurður hvers vegna stökkið í efstu deild hafi ekki komið fyrr sagði Steinþór Már: „Ég bara veit það ekki. Ég ætla ekkert að ljúga, manni hefur alveg liðið vel þarna í neðri deildunum að hafa það kósí.
Maður bjóst nú samt aldrei við því að maður væri að fara að spila þegar mótið byrjaði. Því miður meiddist [Kristijan] Jajalo og maður verður þá bara að reyna að grípa tækifærið. Er á meðan er!“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.