Sindri Kristinn Ólafsson markvörður Keflvíkinga sagði að þrátt fyrir ósigur gegn Valsmönnum, 1:2, í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld hefði verið margt jákvætt við leik liðsins gegn Íslandsmeisturunum.
„Ég vil meina að þetta hafi verið stórt skref fram á við hjá okkur. Við þurftum aðeins að núllstilla okkur eftir mjög dapran varnarleik í undanförnum leikjum og mér fannst við sýna í kvöld að við getum varist vel. Samt fengum við mörkin tvö á okkur upp úr föstum leikatriðum, og það þurfum við að skoða,“ sagði Sindri við mbl.is.
„Í seinna markinu vorum við mjög óheppnir. Við reyndum að hreinsa eins og við gátum en það fór alltaf í Valsara. Vissulega skref fram á við en það er fúlt að tapa alltaf.“
Það hefur væntanlega verið aðeins komið á sálina hjá ykkur að fá á ykkur fjögur mörk í þremur leikjum í röð.
„Já, algjörlega, við þurftum að funda og við gerðum þrjár breytingar á byrjunarliðinu, og ég vil meina að þær hafi verið góðar, sérstaklega fyrir varnarleikinn. Við sköpuðum okkur kannski ekki hættuleg færi í þessum leik en við komum okkur í álitlegar stöður og vantaði oft bara herslumuninn.
En Valsmenn eru Íslandsmeistarar og ætla sér titilinn aftur og mér fannst ekki vera sá munur á liðunum í kvöld að annað væri á toppnum en hitt á botninum. Við sóttum hart að þeim á lokakaflanum en skoruðum of seint. Við hefðum þurft að ná markinu á 70. til 80. mínútu því við fengum ekki einu sinni aðra sókn eftir markið. En heilt yfir er ég ánægður, Joey skoraði í dag og það skiptir miklu máli. Þetta er fín frammistaða en við þurfum að skoða föstu leikatriðin. Við höfum fengið slík mörk á okkur undanfarin ár og þurfum að halda því áfram,“ sagði Sindri Kristinn Ólafsson.