Vorum jafnvel aðeins of þægilegir

Kristinn Steindórsson í baráttu á Akranesi í kvöld.
Kristinn Steindórsson í baráttu á Akranesi í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

„Mér finnst frá mínu sjónarhorni þetta vera allt of spennandi,“ sagði Kristinn Steindórsson, sem átti góðan leik fyrir Breiðablik í 3:2 sigri á ÍA þegar liðin mættust í 6. umferð efstu deildar karla í fótbolta á Akranesi í kvöld, Pepsi Max-deildarinnar.

„Mér finnst heilt yfir þá hefðum við átt að vinna stærra og öruggara, ekki átt að hleypa þeim inn í leikinn í byrjun seinni hálfleiks og ekki heldur í lokin svo þetta varð óþarflega tæpt en við náðum sigrinum og það er fyrir öllu. Við vitum að það er mikil orka í Skagaliðinu og það vill koma og pressa en við vissum að ef við værum svalir og fyndum réttu sendingarnar myndum við leysa það. Stundum vorum við jafnvel aðeins of þægilegir þegar við hefðum jafnvel átt að losa okkur við boltann fram völlinn en það er bara eins og gerist og gengur. Við gerðum svo sem ekki nein stór mistök en það var ýmislegt sem má líka bæta,“ bætti Kristinn við.

Breiðabliki var spáð sigri í deildinni en Kristinn er ekkert að pæla of mikið í stöðunni. „Við erum einmitt núna að einbeita okkur að því að bæta okkar spilamennsku og ná í stig sem við gerðum ekki í byrjun.  Við erum því ekkert að pæla allt of mikið í hvað er að gerast í kringum okkur, vitum að ef við höldum áfram að vinna og fá þrjú stig mun það skila sér því maður sér ekki fyrir sér að neitt lið sé að fara stinga af. Ef við náum í okkar stig og höldum áfram svona verðum við í kringum toppsætin í deildinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka