Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur fellt úr gildi úrskurð aga- og úrskurðarnefndar um að dæma Viktor Smára Elmarsson í fimm leikja bann og banna hann frá Dalvíkurvelli á meðan bannið átti að vara. Auk þess var sekt sem knattspyrnudeild Magna hafði verið gert að greiða felld úr gildi.
Upphaflega var Viktor Smári, sem er nú leikmaður KA, dæmdur í bannið eftir að honum var gefið að sök að hafa viðhaft rasísk ummæli í garð mótherja er hann lék æfingaleik með Magna gegn Aftureldingu í apríl síðastliðnum.
Stuðst var við skýrslu dómara leiksins sem sagðist ekki hafa orðið vitni að atvikinu sjálfur. Í skýrslunni stóð meðal annars:
„Leikmenn og starfsmenn voru allir saman, og leikmenn Aftureldingar héldu sínum leikmanni í fangi og leikmenn Magna voru að taka sinn leikmann í burtu. … [Þ]etta gerðist bara allt í einu, allir voru rólegir og svo eftir nokkrar sekúndur gerðist þetta. Þjálfari Aftureldingar sagði mér að leikmaður Magna [Viktor Smári Elmarsson] sagði eithvað rasískt [við] leikmann Aftureldingar eins og „pólska drasl“.“
Hafi ummæli leikmannsins, „pólska drasl“ falið í sér fyrirlitningu og niðurlægingu í orði varðandi þjóðernisuppruna leikmanns andstæðinga og því hafi aga- og úrskurðarnefnd úrskurðað Viktor Smára í fimm leikja bann.
Í úrskurði áfrýjunardómstóls KSÍ segir hins vegar um ástæðu þess að bannið var fellt úr gildi: „Það er mat dómsins að ekki liggi fyrir í gögnum málsins óyggjandi staðfesting á því hvaða orð leikmaður Magna lét falla við leikmann Aftureldingar enda kemur fram í skýrslu dómara að dómari varð ekki vitni að þeim orðaskiptum.
Hefur dómari eftir þjálfara Aftureldingar að einhver rasísk ummæli hafi verið látin falla án þess að staðfest sé með skýrum hætti hvaða orð það voru.
Dómurinn byggir sönnunarmat sitt á skýrslu dómara og öðrum þeim gögnum sem fram hafa verið lögð í málinu og með hliðsjón af þeim telur dómurinn ekki fullnægjandi sannað að leikmaðurinn hafi viðhaft þau ummæli sem vísað er til í skýrslu dómara og verður hann því ekki talinn hafa gerst brotlegur við gr. 15.1. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.“