Ég hef engar áhyggjur

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK.
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Úrslitin voru sanngjörn að mörgu leyti. Bæði lið fengu fá færi og fáa möguleika. Við fengum sennilega okkar bestu möguleika áður en KR skorar fyrsta markið sem kom eins og það kom. Það var lykilatriði að við héldum haus. Við vorum þolinmóðir og vissum að við myndum fá okkar möguleika á einhverjum tímapunkti í leiknum,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK í Vesturbænum eftir 1:1 jafntefli liðsins gegn KR í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu.

Spurður hvort þetta sé unnið stig að hans mati úr því sem komið var sagði Brynjar:

„Já og nei. Það gat einhvern veginn allt gerst eftir að við jöfnum. En miðað við hvernig þetta var eftir jöfnunarmarkið, fram og til baka, þá þetta bara fínt stig á KR-vellinum," sagði Brynjar Björn.

Brynjar var hreinskilinn þegar hann var spurður hvort HK hafi mögulega átt meira skilið úr þessum leik.

„Nei, mér fannst það ekki. Þetta var held ég bara sanngjörn niðurstaða úr leiknum. Hann var ekki opinn og ekki mörg færi hjá báðum liðum. Nokkuð sanngjarnt í dag“ sagði Brynjar.

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af stigasöfnuninni það sem af er sumri, þrjú stig úr sex leikjum, kvað Brynjar Björn nei við.

„Nei. Mér fannst vera karakter í þessu í dag hjá okkur að ná að jafna eftir að hafa fengið mark á okkur sem var ekki alveg í kortunum. Við gerum ein mistök og þeir refsa fyrir það. Það hefur verið okkar saga í fyrstu leikjunum. Við stóðum vörnina vel og KR-ingarnir fengu ekki mikið af færum," sagði Brynjar.

Hann var ánægður með markvörðinn sinn, Arnar Frey Ólafsson, sem gerði sig sekan um mistök sem leiddu til marks KR í kvöld og sagði hann hafa staðið sig frábærlega að öðru leyti.

„Arnar stóð sig frábærlega þegar hann þurfti að grípa inn í síðar í leiknum. Ég hef engar áhyggjur og held að við séum á réttri leið með þetta. Við teljum að við hefðum getað fengið fleiri stig í síðustu fjórum, fimm leikjum. En gerðum það ekki og höldum áfram. Það er nóg af leikjum eftir og held að við eigum eftir að fá nóg af stigum og vel það," sagði Brynjar Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert