Ekki tilbúinn að fórna síðasta ári ferilsins

Frá leiknum á Víkingsvelli í kvöld.
Frá leiknum á Víkingsvelli í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við vorum svolítið off í dag og við getum verið ágætlega sáttir við stigið. Það er samt grátlegt að hanga ekki á þessu eftir að við komumst yfir í lokin,“ sagði Kári Árnason í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli Víkings og Fylkis í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. 

Fylkir komst í 1:0 en Víkingur skoraði tvö mörk á nokkrum mínútum þegar skammt var eftir. Fylkir átti hinsvegar lokaorðið og jafnaði rétt fyrir leikslok með skallamarki Nikulásar Val Gunnarssonar. 

„Þetta var heimsklassa afgreiðsla hjá honum en ég á eftir að skoða þetta betur. Ég er ekki nógu ánægður með pressuna okkar því ef hún er ekki on, þá þurfum við að falla til baka. Við höfum talað um það margoft. Ef menn óðu í einhverja pressu eins og við gerðum í fyrra er það ekki í lagi og við skoðum það,“ sagði Kári.

Víkingur skapaði sér fín færi í leiknum en Kári var ekki sérstaklega sáttur við spilamennskuna. 

Við vorum að skapa mikinn usla í hornum og markvörðurinn þeirra ver frábærlega tvisvar frá sjálfum mér og svo Viktori o.s.frv. Ég vildi fá boltann fram og við náum að þjösna einum inn. Svo skorar Helgi frábært mark og þá á þessi leikur að vera búinn. Kannski voru menn þreyttir. Það vantaði meira í sóknarleikinn okkar og sendingarnar voru slakar. Við vorum ágætir að halda boltanum en þetta var of hægt og ekki alveg eins vel og við getum.“

Kári var valinn í landsliðshóp Íslands sem mætir Mexíkó, Færeyjum og Póllandi á næstunni en hann dró sig úr hópnum til að lágmarka áhættuna á að fá kórónuveiruna. 

„Ég er í áhættuhópi því ég er astmasjúklingur. Ég er ekki tilbúinn að fórna síðasta ári ferilsins ef svo ólíklega vildi til að ég fengi Covid,“ sagði Kári sem ætlar að gefa kost á sér í landsliðið í framtíðinni. „Að sjálfsögðu og ef ég væri bólusettur hefði ég mætt með bjöllur á. Þetta er staðan og það er of mikið undir persónulega og Víking líka,“ sagði Kári. 

Kári Árnason verður ekki með Íslandi í komandi landsleikjum.
Kári Árnason verður ekki með Íslandi í komandi landsleikjum. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert