Jafnt vestur í bæ

Kennie Chopart og Birnir Snær Ingason í baráttunni í leiknum …
Kennie Chopart og Birnir Snær Ingason í baráttunni í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

KR og HK skildu jöfn, 1:1, í spennuþrungnum leik í Vesturbænum í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu. Jöfnunarmark gestanna úr Kópavogi kom sex mínútum fyrir leikslok. KR-ingar voru sterkari aðilinn í leiknum og fengu færi til þess að gera út um hann í síðari hálfleik en var refsað grimmilega. Stigið gerir lítið fyrir bæði lið, KR hefur átta stig í 6. sæti og HK þrjú í 10. sæti eftir sex leiki.

Leikurinn fór fremur rólega af stað og liðin skiptust á að reyna sækja. HK-ingar voru líflegir til að byrja með en drógust aftar á völlinn eftir því sem leið á og lokuðu svæðum vel.  Á 21. mínútu dró hins vegar til tíðinda þegar boltinn barst til Arnars Freys í marki HK-inga við endalínuna. KR-ingar settu mikla pressu á hann sem endaði með því að Atli Sigurjónsson náði til knattarins og smellti í netið úr þröngum vinkli. Afar laglega gert hjá Atla en markið verður að skrifast alfarið á markvörð HK-inga.

KR virtust eflast við markið og leikurinn fór að mestu fram á vallarhelmingi gestanna án þess að mörg opin færi fengju að líta dagsins ljós. KR-ingar voru aftur á móti hættulegir í föstum leikatriðum og fengu fín færi bæði upp úr hornspyrnum og aukaspyrnum. Hættulegustu tilraun HK í fyrri hálfleik átti Bjarni Gunnarsson sem skallaði knöttinn rétt framhjá á 44. mínutu.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað og liðin gáfu fá færi á sér. KR-ingar höfðu þó áfram yfirhöndina og voru meira með boltann án þess að skapa sér mikið meira en hættulegar sóknarstöður.

Fyrsta hættulega færi síðari hálfleiksins kom ekki fyrr en á 79. mínútu er Óskar Örn Hauksson slapp í gegn á móti Arnari. Óskar gerði vel og kaus að fara framhjá Arnari og átti skotið eftir gegn varnarmönnum á marklínu HK en var í litlu jafnvægi og setti knöttinn framhjá með hægri fæti.

Varamaðurinn Stefan Ljubicic jafnaði metin fyrir gestina á 84. mínútu úr fyrsta almennilega færi HK-inga í leiknum. Boltinn barst þá inn á teig KR og svo virtis sem Aron Bjarki Jósepsson, annar varamaður, hafi ætlað sér að skalla boltann til baka á Beiti í marki KR. Það tókst ekki og eftir smá klafs í teignum náði Stefan til knattarins og þrumaði í þaknetið, 1:1. Urðu það lokatölur.

KR-ingar tengdu síðast saman tvo sigurleiki í júlí í fyrra og geta nagað sig í handabökin að svo hafi ekki farið í kvöld. 1:0 er hættuleg staða og það vita KR-ingar nú manna best. Heilt yfir var KR sterkara liðið á vellinum og það skapaði sér ágæt færi til þess að klára leikinn í stöðunni 1:0 en eins og svo oft áður tókst KR-ingum ekki að vinna á heimavelli. Það gerðist síðast í ágúst í fyrra og segir sína sögu. Liðið er nú átta stigum frá toppliði Vals og við það una KR-ingar alls ekki.

HK spilaði leikinn vel varnarlega og KR-ingar fengu ekki mörg opin færi. Sóknarleikur liðsins var hins vegar ekki upp á marga fiska. Þeir fengu eitt færi í sitt hvorum hálfleiknum og skoruðu úr því síðara. Spilamennska þeirra það sem af er sumri hefur verið ágæt en liðið lá í dvala löngum stundum í kvöld og það var ekki margt í kortunum sem benti til jöfnunarmarks. HK-ingar fara því eflaust nokkuð sáttir með stig úr Vesturbæ á koddann úr því sem komið var. 

KR 1:1 HK opna loka
90. mín. 4 mín bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert