Kári Árnason, miðvörðurinn reyndi í liði Víkings Reykjavíkur, hefur dregið sig úr íslenska landsliðshópnum sem á fyrir höndum þrjá vináttuleiki í lok mánaðarins og byrjun þess næsta.
Þetta fullyrti Guðmundur Benediktsson í Stúkunni á Stöð 2 Sport rétt í þessu, þegar síðari hálfleikur í viðureign Víkings og Fylkis var að hefjast í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu.
Kári er ekki meiddur enda er hann enn inni á vellinum með fyrirliðaband Víkinga.
Uppfært kl. 21.15
Kári staðfesti þessar fregnir í samtali við Stöð 2 Sport að leik loknum. Ástæðan fyrir því að hann dregur sig úr hópnum er sú að hann vill ekki taka áhættuna á að smitast af kórónuveirunni.
Kæmi til þess að hann myndi smitast í landsliðsverkefninu, þar sem ferðalög til Bandaríkjanna, Færeyja og Póllands bíða, sæi Kári fram á að vera frá út tímabilið, sem væri líklega hans síðasta á ferlinum.