Landsliðsmennirnir Aron Einar Gunnarsson og Ragnar Sigurðsson hafa síðustu daga æft með Víkingi í Reykjavík til að halda sér í standi. Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar á eitt ár eftir af samningi sínum við Al-Arabi í Katar en Ragnar er án félags.
„Þeir koma með mikil gæði og það er gaman fyrir þessa stráka að æfa með fleirum sem hafa verið lengi í þessu og kunna þetta. Þeir læra af því að vera með þeim,“ sagði Kári Árnason, félagi þeirra hjá landsliðinu og leikmaður Víkings í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli liðsins við Fylki í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld.
Hann útilokar ekki að reyna að fá Ragnar Sigurðsson til að skrifa undir hjá Víkingi. „Við sjáum til hvað hann vill gera en ég mun reyna,“ sagði Kári.