Knattspyrnufélög hér á landi mega taka á móti allt að 900 áhorfendum í sæti frá og með deginum í dag en ný reglugerð á takmörkunum hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins tók gildi í dag.
Alls mega 150 manns koma saman á æfingum og í keppni og þá mega 300 manns vera í hverju rými í áhorfendastúkum landsins en hámark rýma í hverri byggingu eða stúku eru þrjú.
Þá er veitingasala nú heimil í hálfleik með ákveðnum skilyrðum en áhorfendur verða áfram að sitja í númeruðum sætum og skrá bæði kennitölu, nafn og símanúmer.
Áhorfendur verða áfram að vera með andlitsgrímur í stúkunum og þá er mikilvægt að áhorfenda- og keppnissvæði sé aðskilið og að engin blöndun á milli svæði eigi sér stað.