Meistararnir missa tvo lykilmenn

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir á að baki fjóra A-landsleiki fyrir Ísland.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir á að baki fjóra A-landsleiki fyrir Ísland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonurnar Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Hildur Þóra Hákonardóttir munu ekki ljúka tímabilinu með Breiðabliki en þær eru báðar á leið í háskólanám til Bandaríkjanna.

Þær hafa báðar hlotið háskólastyrk við hinn virta Harvard-háskóla í Boston í Bandaríkjunum en Harvard-háskólinn er á meðal þeirra virtustu í Bandaríkjunum.

Áslaug Munda, sem er 19 ára, hefur verið algjör lykilmaður í liði Blika undanfarin ár en hún lék lítið með liðinu á síðustu leiktíð vegna meiðsla.

Hún á að baki 44 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað átta mörk en hún hefur skorað tvö mörk í fjórum leikjum í úrvalsdeildinni í sumar.

Þá á hún að baki fjóra A-landsleiki en hún var lykilmaður Blika þegar liðið varð Íslands- og bikarmeistari tímabilið 2018.

Hildur Þóra á að baki 28 leiki í efstu deild fyrir Breiðablik en hún lék þrettán leiki Breiðabliks á síðustu leiktíð þegar liðið varð Íslandsmeistari.

Þær munu halda utan í byrjun ágúst og missa því af lokaumferðum Pepsi Max-deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert