„Mér fannst við bara öflugir á flestum sviðum í dag,“ sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis eftir 2:1 sigur á FH þegar liðið áttust við í lokaleikjum 6. umferðar í efstu deild karla í fótbolta í kvöld, Pepsi Max deildinni.
Bæði lið voru greinilega með sín leikplön og þegar leið á leikinn varð skipulag Leiknis ráðandi. „Við byrjuðum ekki nægilega vel en breyttum í hálfleik því við vorum ekkert sérstaklega ánægðir með megnið af fyrri hálfleiknum, skiptum í 4-4-2 leikkerfi og það gekk hrikalega vel, leikmenn eiga hrós skilið hvernig þeir komu inn í seinni hálfleikinn. Maður skoðar leiki hjá andstæðingnum og við náðum ekki að gera það sem við ætluðum að gera í fyrri hálfleik en í þeim seinni náðum við meiri tökum á því og fannst við eiga þetta fyllilega skilið.“
Breiðhyltingar eru sem stendur í 7. sæti deildarinnar með tvo sigra, tvö jafntefli og tvö töp en á þjálfarinn von á slíku framhaldi. „Ég held að þessi byrjun í deildinni hjá okkur sé fyrirheit um hrikalega gott sumar en við þurfum einhvern vegin að passa um að fara ekki of hátt við svona frábær úrslit, heldur halda okkur á tánum því það er allt fljótt að breytast í þessu,“ sagði þjálfarinn í lokin.