Víkingur úr Reykjavík og Fylkir skildu jöfn, 2:2, í ótrúlegum leik í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Þrjú mörk komu á dramatískum síðustu tíu mínútum leiksins.
Víkingur var sterkari aðilinn nánast allan fyrri hálfleikinn og skapaði sér nokkur góð færi. Flest þeirra komu eftir hættulegar hornspyrnur en Aron Snær Friðriksson í marki Fylkis varði nokkrum sinnum virkilega vel. Besta markvarslan kom eftir hættulega tilraun frá Kára Árnasyni í teignum en Aron var eldsnöggur niður og varði vel.
Hinum megin ógnaði Fylkir lítið sem ekki neitt og hafði Þórður Ingason lítið að gera í markinu. Það kom því algjörlega gegn gangi leiksins að Djair Parfitt-Williams skoraði á 43. mínútu. Hann átti þá fyrirgjöf á vinstri kantinum og boltinn lak í markið á fjærstönginni, án þess að nokkur Fylkismaður hafi snert hann. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.
Fylkismenn spiluðu mjög skynsamlega í seinni hálfleik og gáfu sárafá færi á sér gegn óvenjuslökum Víkingum sem buðu upp á lítið. Hinum megin reyndu Fylkismenn lítið að sækja enda sáttir með eins marks forskot.
Gestirnir fengu það í bakið því danski sóknarmaðurinn Nikolaj Hansen jafnaði á 81. mínútu er hann var lifandi í teignum og kastaði sér á boltann og setti hann í bláhornið fjær. Víkingar voru ekki hættir því varamaðurinn Helgi Guðjónsson kom Víkingum yfir stuttu seinna er hann slapp einn í gegn eftir sendingu frá Kwame Quee og skoraði með fallegu skoti.
Fylkismenn gáfust ekki upp og varamaðurinn Nikulás Val Gunnarsson jafnaði á 89. mínútu með góðum skalla eftir sendingu annars varamanns, Birkis Eyþórssonar. Þrátt fyrir sex mínútur í uppbótartíma urðu mörkin ekki fleiri.
Fylkismenn virtust ætla að sigla 1:0-sigri í hús þangað til allt sprakk á síðustu tíu mínútunum. Fylkir komst yfir undir lok fyrri hálfleiks og gáfu engin færi á sér í seinni hálfleik, þangað til Nikolaj Hansen jafnaði. Við það hresstust Víkingar til muna og bættu við öðru marki stuttu síðan.
Fylkir gerði gríðarlega vel að gefast ekki upp og ná að jafna aftur, en Víkingar verða eflaust sársvekktir að ná ekki að sigla sigrinum í hús með 2:1 stöðu þegar skammt var eftir. Jafntefli er mögulega sanngjörn úrslit þegar upp er staðið, en bæði lið mega vera svekkt með að taka ekki þrjú stig.
Ef Víkingur ætlar sér að taka þátt í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn verður liðið að vinna leiki sem þennan, sérstaklega á heimavelli. Víkingar voru hins vegar ólíkir sjálfum sér í kvöld, sérstaklega framan af í seinni hálfleik. Leikurinn er sá slakasti til þessa hjá liðinu í sumar. Það er hins vegar styrkleikamerki hve nálægt þeir voru að vinna, þrátt fyrir ekki sérstaka frammistöðu.
Það er allt annað að sjá Fylkisliðið með hinn 39 ára gamla Helga Val Daníelsson á miðjunni. Hann var algjör klettur og ótrúlega frár á fæti. Margir spáðu því að ferillinn væri búinn þegar hann tvífótbrotnaði snemma síðasta sumar, en hann á greinilega nóg eftir. Það er mun meira jafnvægi í liðinu með Helga á miðjunni og yngri leikmenn í kringum hann græða á því að spila með slíkum reynslubolta.