Nýliðarnir úr Leikni sáu við þaulskipulögðum FH-ingum þegar liðin mættust í Breiðholtinu í kvöld þegar 6. umferð efstu deildar karla í fótbolta lauk og með mikilli baráttu tókst þeim að knýja fram 2:1 sigur. Sanngjarn sigur og Leiknir í 7. sætið.
Þó gestirnir úr Hafnarfirði væru meira með boltann og næðu að hafa víglínuna rétt utan vítateigs heimamanna tókst þeim ekki að brjóta vörn Leiknis á bak aftur.
Hættan var samt alltaf hinu meginn við hornið og þegar Steven Lennon fékk að komast í gegnum vörn Leiknis, var ekki að sökum að spyrja og hann átti hárnákvæma sendingu á Matthías Vilhjálmsson sem kom FH í 1:0 af stuttu færi á 19. mínútu.
Leiknismenn samt ekkert að gefa eftir, áttu sínar sóknir snöggir fram og aðeins mínútu eftir mark FH átti Emil Berger frábæra sendingu af hægri kanti á Sævar Atla Magnússon sem skoraði úr miðjum vítateig til að jafna leikinn, 1:1.
FH-ingar ætluðu sér að sýna klærnar og hófu að koma sóknarleiknum í góðan farveg auk þess að pressa vörn Leiknis aftarlega. Þeir urðu samt að fara varlega því sóknarmenn Leiknis voru algerlega tilbúnir til að refsa gestunum með snöggum sóknum, með allt að 5 leikmenn á varnarlínu FH.
FH gekk illa að koma sér upp góðum sóknarleik og var refsað þegar þeir misstu boltann. Eftir ein slík mistök fékk Árni Elvar Árnason boltann skammt frá miðju, rauk upp völlinn og þegar varnarmenn FH, Baldur Logi Guðlaugsson braut á honum var dæmt víti.
Sævar Atli tók vítið og skaut af öryggi í vinstra hornið og nýliðarnir komnir í 2:1 forystu á 57. mínútu.
FH reyndi að skipta um gír í vörninni og færði sig framar en við það fékk Leiknir pláss á miðjunni og gat skotist fram völlinn en lítið gerðist.
Þar með var allt undir – mark eftir þunga sókn hjá FH og mark úr skyndisókn fyrir Leikni.